Enski boltinn

Jason Daði lagði upp gegn topp­liðinu en Benoný haldið á bekknum

Sindri Sverrisson skrifar
Jason Daði Svanþórsson kom til Grimsby frá Breiðablik í fyrra.
Jason Daði Svanþórsson kom til Grimsby frá Breiðablik í fyrra. Grimsby Town

Jason Daði Svanþórsson og Benoný Breki Andrésson voru á ferðinni í enska boltanum í hádeginu og átti Jason Daði stóran þátt í frábærum 3-1 útisigri Grimsby begn toppliði Walsall í C-deildinni.

Jason Daði átti stutta sendingu úr aukaspyrnu á Jayden Luker sem skoraði jöfnunarmark Grimsby á 21. mínútu. Grimsby komst svo yfir úr vítaspyrnu rétt fyrir hálfleik og Luker skoraði svo annað mark sitt á 66. mínútu.

Með sigrinum er Grimsby komið upp í umspilssæti, 7. sæti deildarinnar, með 56 stig en liðin í 4.-7. sæti spila um fjórða og síðasta lausa sætið í C-deildinni á næstu leiktíð.

Benoný Breki Andrésson þarf áfram að bíða eftir sínu fyrsta tækifæri í byrjunarliði Stockport County, þrátt fyrir að hafa skorað þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum.

Hann kom ekki inn á í dag fyrr en á 76. mínútu og tókst ekki frekar en liðsfélögum sínum að skora, í markalausu jafntefli við Charlton.

Stockport er því með 62 stig í 4. sæti C-deildarinnar en liðin í kring eiga 1-2 leiki til góða núna. Charlton er í 5. sætinu með 60 stig og einn leik til góða. Í C-deildinni komast efstu tvö liðin beint upp um deild en liðin í 3.-6. sæti fara í umspil um þriðja og síðasta lausa sætið.


Tengdar fréttir

Finnur sig vel í hörkunni á Englandi: „Orðinn fullorðinn maður núna“

Hún var fáránlega góð segir Benoný Breki Andrésson um tilfinninguna sem fylgdi því að skora fyrstu mörkin sín fyrir Stockport County. Hann segist hafa aðlagast vel hjá félaginu og finnur sig vel í hörku ensku C-deildarinnar. Benoný hefur skorað þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum Stockport, á aðeins 66 mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×