Glódís hefur á sínum atvinnumannaferli síðastliðinn áratug alltaf, eða því sem næst, verið til taks fyrir sitt félags- og landslið og spilað svo gott sem hverja einustu mínútu.
Frá því í desember 2021 hefur hún spilað alla deildarleiki Bayern, og nánast alla frá upphafi til enda, fyrir utan þegar hún fékk sitt fyrsta rauða spjald á ferlinum í september og missti þá af einum leik vegna leikbanns. Svo merkilega vill til að sá leikur, líkt og leikurinn í dag, var gegn Köln.
Óþægindi í hné
Glódís segist í samtali við Vísi vera að glíma við óþægindi í hné en reiknar með því að verða mögulega klár í slaginn í komandi stórleikjum Bayern sem mætir Wolfsburg 14. mas og svo Lyon í Meistaradeild Evrópu 18. mars.
Fjarvera Glódísar kom ekki að sök í dag því Bayern vann 3-0 sigur og er nú með þriggja stiga forskot á Frankfurt og Wolfsburg á toppi deildarinnar, eftir sextán umferðir.
Afar sárt tap hjá Cecilíu í Róm
Samherji Glódísar í íslenska landsliðinu, Cecilía Rán Rúnarsdóttir, stóð í marki Inter í dag í 2-1 tapi á útivelli gegn Roma þar sem sigurmark heimakvenna kom á fimmtu mínútu uppbótartíma.
Lucia Di Guglielmo skoraði sigurmarkið eftir að Manuela Giugliano hafði jafnað metin úr vítaspyrnu á 68. mínútu en Tessa Wullaert kom Inter yfir á 6. mínútu.
Með sigrinum komst Roma upp að hlið Inter í 2.-3. sæti en Inter á þó leik til góða. Juventus er efst í deildinni með 48 stig og á leik við AC Milan í dag.