Skoðun

Sólar­hringur til stefnu

Flosi Eiríksson skrifar

Kosningum í VR lýkur kl. 12 á morgun, fimmtudag. Í framboði mínu til formanns hef ég notið þeirra forréttinda að fá að hitta og heyra í ótal mörgum félögum í VR. Mig langar að þakka fyrir öll þau gefandi og krefjandi samtöl sem ég hef átt á undanförnum vikum, á vinnustöðum, úti í búð, í síma, heita pottinum og hvar sem er. Þau samtöl öll hafa verið mér ómetanleg í að skilja enn betur hvað brennur á félagsfólki VR og um leið hvatning í baráttunni. Ég er sannfærður um að við getum gert félagið okkar sterkara og virkjað félagana betur.

Það er rúmur sólarhringur þangað til kosningum til formanns og stjórnar VR lýkur. Við höfum núna frábært tækifæri til að koma á verklagi í VR þar sem við vinnum öll saman fyrir bættum kjörum og hag alls félagsfólks. Við þurfum að sameina félagið og tryggja með styrk okkar og samstöðu að við komum að öllum málum sem varða okkar félagsfólk.

Við eigum að stíga enn frekari skref í húsnæðismálum og tryggja að stjórnvöld og aðrir aðilar standi við sín loforð sem gefin voru í tengslum við kjarasamninga.

Það hefur verið áhugavert að sjá að eftir því sem líður á þessa kosningabaráttu hafa aðrir formannsframbjóðendur tekið undir með mér um nauðsyn þess að sameina félagið og vinna fyrir allt félagsfólk. Það var ekki endilega þannig í upphafi baráttunnar, en það er fagnaðarefni að þessi hugsun er komin á oddinn og hvernig sem kosningarnar fara er ég stoltur af því að hafa komið þessum áherslumálum að.

Við erum svo heppin að í framboði til stjórnar er stór hópur af öflugu fólki sem allt mun sóma sér vel í stjórn VR. Það er dæmi um félagsauðinn í VR sem við þurfum að vera duglegri að nýta á öllum sviðum.

Kæru félagar. Ég hef á undangengnum vikum lagt mig allan fram í því að koma því á framfæri hvernig ég vil að VR starfi og sæki fram og af hverju ég yrði góður formaður í öflugum forystuhópi í félaginu. Ég skora á okkur öll að nýta kosningaréttinn, velja kraftmikinn formann og gera þannig félagið okkar ennþá öflugra. Áfram VR.

Höfundur er viðskiptafræðingur og í framboði til formanns VR.




Skoðun

Sjá meira


×