Erlent

Rússar gefa lítið fyrir niður­stöðu fundar Banda­ríkjanna og Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Zakharova er ekki ein um að gefa lítið fyrir niðurstöðu fundar Bandaríkjamanna og Úkraínumanna en þingmaðurinn Konstantin Kosachev sagði alla samninga háða forsendum Rússa, ekki Bandaríkjanna.
Zakharova er ekki ein um að gefa lítið fyrir niðurstöðu fundar Bandaríkjamanna og Úkraínumanna en þingmaðurinn Konstantin Kosachev sagði alla samninga háða forsendum Rússa, ekki Bandaríkjanna. Getty

Afstaða Rússlands ræðst ekki af samþykktum eða viðleitni aðila utan Rússlands, heldur innan Rússlands. Þetta sagði Maria Zakharova, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, í morgun.

Tilefnið er fundur sendifulltrúa Bandaríkjanna og Úkraínu í Sádi Arabíu í gær, þar sem Úkraínumenn sögðust viljugir til að ganga að tillögu Bandaríkjamanna um 30 daga vopnahlé.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði eftir fundinn að hann væri reiðubúinn til að taka aftur á móti Vólódímír Selenskí Úkraínuforseta í Hvíta húsinu. Þá sagðist hann myndu ræða við Vladimir Pútín Rússlandsforseta í vikunni.

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að boltinn væri nú hjá Rússum, eftir að Úkraínumenn hefðu skuldbundið sig til að láta af átökum í 30 daga og ganga að samningaborðinu.

Miklar efasemdir eru hins vegar uppi um að Rússar hafi raunverulega áhuga á því að mæta Úkraínumönnum á miðri leið en þeir hafa gefið til kynna að þeir muni ekki láta af stríðsrekstri sínum nema með með mörgum fyrirvörum.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði til að mynda í rússneskum miðlum að Rússar myndu ekki undir nokkrum kringumstæðum fallast á viðveru hermanna Atlantshafsbandalagsríkjanna í Úkraínu.

Greint var frá því í morgun að John Ratcliffe, forstjóri CIA, og Sergei Naryshkin, forstjóri leyniþjónustunnar SVR, hefðu rætt saman í síma í gær. Til umræðu voru meðal annars möguleg samvinna stofnananna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×