Samkvæmt uppfærðum ráðleggingum Landlæknis um mataræði á að neyta allt að átta ávaxta og grænmetis á dag. Borða fisk um þrisvar í viku en minna af rauðu kjöti. Fólki er ráðlagt að neyta mjólkurvara og taka D- vítamín á hverjum degi. Drekka mikið vatn og takmarka neyslu á sætindum og snakki. Í fyrsta skipti er fólki ráðlagt að drekka lítið eða ekkert áfengi. Loks eru orkudrykkir með koffíni og sætindum ekki fyrir börn og ungmenni samkvæmt þessum leiðbeiningum.

Best að sleppa áfenginu alveg
Jóhanna Eyrún Torfadóttir verkefnisstjóri hjá Landlækni segir að markmiðið með ráðleggingunum sé að styðja við og bæta heilsu landsmanna og minnka líkur á ýmsum langvinnum sjúkdómum síðar á ævinni.
„Opinberar ráðleggingar um mataræði hafa komið út alls fjórum sinnum síðan árið 1986. Nú er í fyrsta skipti fjallað um áfengi, orkudrykki, kaffi og te. Ráðlagt er að drekka eins lítið áfengi og mögulegt er eða sleppa því alveg. Neysla á því getur aukið líkur á krabbameini í meltingarvegi og brjóstum. Það getur leitt til lifrarsjúkdóma og er tengt aukinni dánartíðni og minni lífsgæðum,“ segir Jóhanna.
Landlæknir ráðleggur fólki einnig að takmarka neyslu á unnum kjötvörum, sælgæti, snakki, kökum, kexi og sætum drykkjum. Fólki er ráðlagt að drekka helst kranavatn. Þá er fullorðnum ráðlagt að drekka ekki meira en fjóra kaffibolla á dag.
„Mikil neysla á sykruðum drykkjum getur t.d. aukið hættu á hjarta og æðasjúkdómum, sykursýki af tegund 2 og tannskemmdum,“ segir hún.

Jóhanna mælir með að fólk leiti eftir svokallaðri skrárgatsmerkingu á vörum þegar það gerir innkaup.
„Vörur sem bera Skráargatið verða að uppfylla ákveðin skilyrði varðandi samsetningu næringarefna og því getur verið gott að leita eftir þeirri merkingu. Skráargatið setur t.d. sérstök lágmarksskilyrði fyrir trefjum og heilkorni og hámarksskilyrði fyrir sykri, salti og fitu,“ segir hún.
Fréttastofa fór með Jóhönnu í matvörubúð í dag og fékk ráðleggingar í matarinnkaupum. Hægt er að nálgast þær í fréttinni hér að neðan.