Greint var frá því í dagbók lögreglu í morgun að tilkynning hafi borist í gærkvöldi frá manni í vesturhluta borgarinnar vegna vopnaðs ráns.
„Hann var búinn að vera í samskiptum við aðila og ætlaði að fara að kaupa af honum hlaupahjól, rafmagnshlaupahjól. Þegar hann kom á staðinn var ekkert hlaupahjól á staðnum en tveir aðilar og annar með hníf. Þeir ógnuðu honum og kröfðu hann um peninga og tóku þarna einhverjar fimmtíu þúsund krónur af honum,“ segir Heimir Ríkharðsson yfirlögregluþjónn. Manninum varð ekki meint af.
Er þetta algengt dæmi að fólk sé að versla eitthvað í gegn um facebook eða netið og lendi í svona?
„Þetta hefur alveg komið fyrir en þetta er ekki algengt. Þetta getur alveg gerst.“
Tvímenningarnir voru handteknir skömmu síðar og færðir á lögreglustöð og er málið nú til rannsóknar.
Kona réðst á aðra konu
Greint var frá því í dagbók lögreglu í morgun að tilkynnt hafi verið um stórfellda líkamsárás í Hlíðunum. Sjúkraflutningamenn höfðu óskað eftir aðstoð lögreglu, en árásin var framin skammt frá slökkviliðsstöðinni í Skógarhlíð.
„Þegar við komum á staðinn að það er búið að ráðast á konu, sem var lemstruð og jafnvel talin rifbeinsbrotin. En árásaraðilinn var farinn af staðnum,“ segir Heimir.
„Þetta var kona sem réðst á aðra konu. Það er vitað hver gerandinn er en hún var farin af staðnum“