„Við munum ræða um land. Við munum ræða um orkuver,“ sagði Trump um borð í Air Force One í gær, spurður að því hvaða málamiðlanir yrðu til umræðu. „Við höfum þegar rætt mikið af því við báða aðila, Úkraínu og Rússland. Við erum þegar að tala um það, skiptingu ákveðinna eigna.“
Trump sagði mikla vinnu hafa verið unna yfir helgina og sagðist telja góða möguleika á því að hægt yrði að binda enda á stríðið í Úkraínu.
Pútín hefur sagst reiðubúinn til að skoða vopnahlé að ákveðnum skilyrðum uppfylltum en Rússar hafa ekki gefið upp hver skilyrðin eru. Alexander Grushko, aðstoðar varnarmálaráðherra Rússlands, sagði hins vegar í gær að langtímasamningur um frið í Úkraínu þyrfti að grundvallast á því að kröfum Rússa yrði mætt.
Þeirra á meðal væru hlutleysi Úkraínu og að aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hétu því að Úkraína fengi ekki aðild.
Steve Witkoff, sendifulltrúi Trump í málefnum Úkraínu og Rússlands, sagði í gær að nokkurra klukkustunda viðræður við Pútín í síðustu viku hefðu verið „jákvæðar“ og „lausnamiðaðar“. Hann vildi hins vegar ekki tjá sig um mögulegar kröfur og skilyrði Rússa.