Fótbolti

Enginn Messi þegar Argentína getur tryggt sæti sitt á HM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fyrirliðinn verður ekki með í komandi landsleikjum.
Fyrirliðinn verður ekki með í komandi landsleikjum. JUAN MABROMATA / AFP

Argentína mætir Úrúgvæ og Brasilíu í undankeppni HM karla í knattspyrnu síðar í mánuðinum. Argentínumenn þurfa að knýja fram sigur án fyrirliða síns Lionel Messi.

Messi er orðinn 37 ára gamall og þarf að stýra álaginu á leikmanninum sem gæti verið besti fótboltamaður allra tíma. Hann hefur verið notaður sparlega af Inter Miami eftir áramót en þjálfari Inter, Javier Mascherano – sem er einnig fyrrverandi samherji Messi hjá Barcelona og í landsliðinu, hefur ekki viljað segja opinberlega að leikmaðurinn sé að glíma við meiðsli.

Fréttamiðlar í Bandaríkjunum sem og Argentínu telja að Messi hafi meiðst í sigri Inter á Atlanta United um helgina. Hann spilaði hins vegar allan leikinn og virtist ekki hlaupa minna en vanalega svo erfitt er að átta sig á hvort eða hvenær hann hafi meiðst í leiknum.

Þrátt fyrir að vera kominn á aldur hefur Messi haldið sæti sínu í liði Argentínu sem þarf nú að finna leið til að leggja bæði Úrúgvæ og Brasilíu að velli án fyrirliða síns.

Undankeppni knattspyrnusambands Suður-Ameríku, CONMEBOL, er þannig að allar tíu þjóðirnar leika saman í hálfgerðri deildarkeppni. Efstu sex komast á HM á meðan þjóðin í 7. sæti fer í umspil. 

Þegar 12 umferðum af 18 er lokið er Argentína á toppi „deildarinnar“ með 25 stig. Þar á eftir kemur Úrúgvæ með 20 stig á meðan Ekvador og Kólumbía eru með 19 stig. Brasilía er svo í 5. sæti með 18 stig. Fari Argentína með sigur af hólmi í Montevideo á föstudaginn kemur hefur toppliðið tryggt sér sæti á HM sem fram fer í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×