Innlent

Raf­magnið sló út víða um land

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Frá Grundartanga.
Frá Grundartanga. Vísir/Vilhelm

Rafmagnslaust var á Vestfjörðum og hluta Austfjarða um skamma stund vegna bilunar í dreifikerfi Landsnets. Búið er að gera við bilunina og rafmagn víða komið aftur á.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að rafmagnslaust hafi orðið út frá tengjuvirki Landsnets á Teygarhorni. Stórt högg hafi komið á flutningskerfið þegar Norðurál leysti út.

Rafmagnsleysis gætti víðar en Vestfjörðum og Austfjörðum, en íbúar á höfuðborgarsvæðinu urðu varir við spennublikk þannig að rafmagnið þeirra flökti.

Steinunn segir að við svona aðstæður komi högg á allt kerfið og geti það haft þessi áhrif.

Truflun yfirstaðin

Í tilkynningu frá Landsneti segir að truflunin sé yfirstaðin.

„Norðurál sló út fyrr í kvöld og við það kom högg á kerfið. Yfir 600 Megavött (MW) sem fóru út á augabragði sem telst gríðarlega stórt högg á flutningskerfið.“

„Flutningskerfið skipti sér upp í Blöndu á Hólum. Enginn notandi varð rafmagnslaus á því svæði utan spennir Rarik á Teigarhorni á Austurlandi leysti út og leysti Mjólkárlína 1 út og við það einangruðust Vestfirðir frá flutningskerfinu.“

„Varaaflsvélar í Bolungarvík fóru í gang og rafmagnsleysi á norðarverðum Vestfjörðum varð skammvinnt á meðan þær voru að ræsa sig í gang. Sunnanverðir Vestfirðir urðu ekki fyrir rafmagnsleysi en skerðanlegir notendur duttu út.“

Fréttin hefur verið uppfærð

Landsnet



Fleiri fréttir

Sjá meira


×