Innlent

Mættu til við­skipta vopnaðir hnífum og piparúða

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Útkallið barst í fjölbýlishús í póstnúmerinu 104 þar sem Laugardalurinn er miðpunkturinn.
Útkallið barst í fjölbýlishús í póstnúmerinu 104 þar sem Laugardalurinn er miðpunkturinn. Vísir/Vilhelm

Fjórir karlmenn á fertugsaldri voru handteknir í sameign fjölbýlishúss í Laugardalnum eða grennd við hann í gær. Þeir voru vopnaðir hnífum og ólöglegum piparúða. Þeirra bíður sekt upp á 150 þúsund krónur hver.

Greint var frá handtöku mannanna í lögregludagbókinni í morgun þar sem vísað var til líkamsárásar og ólöglegs vopnaburðar.

Unnar Már Ástþórsson varðstjóri á höfuðborgarsvæðinu segir útkallið hafa borist um kvöldmatarleytið í gær. Karlmennirnir fjórir hafi ætlað að kaupa vöru, löglega vöru, en ekki verið sáttir við uppsett verð. Eigandi vörunnar hafi sloppið með minniháttar áverka og óvíst hvort hann leggi fram kæru vegna líkamsárásar.

Karlmennirnir fjórir voru handteknir, færðir í skýrslutöku á lögreglustöðina á Hverfisgötu en sleppt að þeim loknum. Unnar Már segir þá alla eiga von á sekt upp á 150 þúsund krónur hver. Tilraun þeirra til að spara sér pening með því að mæta vopnaðir til viðskipta hafi því farið út um þúfur.

„Það hefði verið betra að setjast að samningaborðinu og ræða þetta eins og fullorðið fólk,“ segir Unnar Már.

Einn karlmannanna á töluverðan sakaferil að baki. Vopnin voru haldlögð og verður í framhaldinu eytt.


Veistu meira um málið? Sendu okkur ábendingu á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×