Erlent

Stefnir þýskum orkurisa fyrir bráðnun jökla í Andes­fjöllum

Kjartan Kjartansson skrifar
Saúl Luciano Lliuya ræktar korn, bygg og kartöflur fyrir utan bæinn Huaraz í Andesfjöllum. Hann telur þýskt kolaorkufyrirtæki ábyrgt fyrir vaxandi flóðahættu af völdum bráðnunar jökla vegna hnattrænnar hlýnunar.
Saúl Luciano Lliuya ræktar korn, bygg og kartöflur fyrir utan bæinn Huaraz í Andesfjöllum. Hann telur þýskt kolaorkufyrirtæki ábyrgt fyrir vaxandi flóðahættu af völdum bráðnunar jökla vegna hnattrænnar hlýnunar. Vísir/EPA

Niðurstaða þýsks dómstóls í máli perúsks bónda gegn þýsku orkufyrirtæki er talin geta verið fordæmisgefandi um ábyrgð á áhrifum loftslagsbreytinga. Bóndinn krefst þess að orkufyrirtækið taki þátt í flóðvörnum á þeim forsendum að losun þess á gróðurhúsalofttegundum valdi bráðnun jökla í Andesfjöllum.

Mál Saúl Luciano Lliuya gegn þýska orkufyrirtækinu RWE er áratugsgamalt en réttarhöld eru nú hafin í því í Hamm í Þýskalandi. Hann byggir á því að brennsla RWE á kolum hafi aukið flóðahættu þar sem hann býr í borginni Huaraz í Andesfjöll.

„Vegna loftslagsneyðarinnar í Huaraz eru fjöllin, eru jöklarnir að bráðna. Ég er hér til að biðja um loftslagsréttlæti,“ sagði Lliuya sem er studdur aðgerðahópnum Germanwatch, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Hættan sem Lliuya vísar til er bráðnunarvatn sem rennur úr fjöllunum í Palcacocha-vatn og skapar hættu á flóðum. Hann segist hafa ákveðið að stefna RWE vegna þess að það sé einn stærsti mengandinn í Evrópu. 

Fyrirtækið hafi losað um 0,5 prósent þeirra gróðurhúsalofttegunda sem mannkynið hefur sleppt út í andrúmsloftið frá iðnbyltingu. Það ætti þess vegna að greiða samsvarandi hlutdeild í kostnaði sem fylgir því að aðlagast þeim loftslagsbreytingum sem hafa orðið. Krefst Lliuya þess að RWE greiði um 17.000 evrur, jafnvirði tæpra 2,5 milljóna króna, í flóðavörnum.

Lögmenn RWE byggja á því að ekki sé hægt að láta einn losanda gróðurhúsalofttegunda sæta ábyrgð á hnattrænni hlýnun. Með sömu rökum væri hægt að lögsækja hvern einasta ökumann í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×