Upp­gjörið: KR - Valur 78-96 | Vals­menn bikar­meistarar í fimmta sinn

Andri Már Eggertsson skrifar
Valur er bikarmeistari árið 2025
Valur er bikarmeistari árið 2025 Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Valur vann átján stiga sigur gegn KR 78-96 í úrslitum VÍS-bikarsins. Valsmenn tóku snemma frumkvæðið og voru í bílstjórasætinu allan leikinn. Þetta var fimmti bikarmeistaratitill Vals í sögu félagsins. 

Andrúmsloftið var hátt enda bikarinn undir. Það virtist vera smá skjálfti í báðum liðum í upphafi leiks en þá tók Taiwo Badmus af skarið fyrir Valsara og gerði sjö af fyrstu níu stigum liðsins. Valsmenn tóku frumkvæðið og eftir að Kári Jónsson setti niður þrist og kom Val átta stigum yfir neyddist Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari KR, að taka leikhlé.

Það var hart barist í leik kvöldsinsVísir/Pawel Cieslikiewicz

KR-ingar voru með aðeins 27 prósent skotnýtingu eftir fyrsta leikhluta, Valsmenn voru sjö stigum yfir eftir fyrsta fjórðung 15-22.

KR ingar byrjuðu annan leikhluta á að gera fyrstu tvær körfurnar og það var fín orka í liðinu. Valsmenn létu það þó ekki slá sig út af laginu og tóku hægt og rólega yfir leikinn. Tólf stigum undir tóku KR-ingar leikhlé um miðjan annan leikhluta.

KR - Valur Bikarinn Karla Vetur 2025

KR-ingar virtust ekki vera að hlusta á Jakob þegar hann tók leikhlé þar sem liðið fór að spila verr og Valsmenn fundu annan gír og skutu ljósin út. KR-ingar tóku sautján þriggja stiga skot í fyrri hálfleik og hittu aðeins einu sinni á meðan Valsmenn tóku fimmtán þriggja stiga skot og hittu átta sinnum

Taiwo Badmus fór á kostum í sigri Vals í úrslitum VÍS-bikarsinsVísir/Pawel Cieslikiewicz

KR-ingar bitu frá sér og byrjuðu seinni hálfleik á 9-2 áhlaupi og þá neyddist Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, að taka leikhlé enda var mikið óöryggi í leik Valsmanna á þessum tíma.

KR-ingar unnu leikhlutann með aðeins þremur stigum sem ógnaði ekki forskoti Vals mikið og staðan var 53-70 þegar haldið var í síðasta fjórðung.

Valur er bikarmeistari 2025Vísir/Pawel Cieslikiewicz

KR hótaði aldrei endurkomu í fjórða leikhluta og stuðningsmenn Vals voru farnir að fagna fimmta titli félagsins löngu áður en fjórði leikhluti kláraðist. Leikurinn endaði með átján stiga sigri Vals 78-96.

Taiwo Badmus var maður leiksinsVísir/Pawel Cieslikiewicz

Atvik leiksins

Það gekk allt upp hjá Val í öðrum leikhluta og stuðningsmenn Vals trylltust þegar Kári Jónsson setti niður þriggja stiga skot nánast frá miðju og kom Val 22 stigum yfir.

Stjörnur og skúrkar

Taiwo Badmus fór fyrir sínu liði og var allt í öllu. Taiwo tók af skarið í fyrri hálfleik og var kominn með 15 stig á 17 mínútum. Taiwo endaði með 27 stig og tók 11 fráköst.

Frank Aron Booker átti frábæra innkomu af bekknum og gerði 20 stig.

Þriggja stiga nýting KR-inga var hræðileg. KR-ingar tóku sautján þriggja stiga skot í fyrri hálfleik og hittu aðeins úr einu. Það reyndist síðan of stór biti fyrir KR-inga að vera tuttugu stigum undir í hálfleik.

Nimrod Hilliard var ansi kaldur og gerði aðeins ellefu stig og var hitti aðeins úr einu þriggja stiga skoti úr fimm tilraunum. KR hefði þurft á honum að halda í kvöld.

Dómararnir [6]

Dómarar leiksins voru Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson og Birgir Örn Hjörvarsson.

Dómarar leiksins voru Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson og Birgir Örn Hjörvarsson. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Það voru nokkrir vafasamir dómar sem liðin voru ósátt með en ekkert sem hafði áhrif á úrslit leiksins og dómararnir komust nokkuð vel frá sínu.

Stemning og umgjörð

Það var rífandi stemning í Smáranum þegar Reykjavíkurliðin mættust í úrslitum VÍS-bikarsins. Stuðningsmenn KR voru byrjaðir að syngja löngu fyrir leik og mættu með tilbúna söngva.

Stuðningsmenn Vals spöruðu raddböndin alveg þangað til trommarinn náði í kjuðana og henti í bongó þá trompaðist Vals stúkan og lét í sér heyra.

Viðtöl

 

„Vonandi mun þetta gefa okkur kraft að klára mótið vel“

Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari KR, var svekktur eftir tap gegn ValVísir/Pawel Cieslikiewicz

Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari KR, var afar svekktur eftir átján stiga tap í bikarúrslitunum gegn Val.

„Varnarlega voru Valsarar erfiðir. Við vorum ekki að ná að opna þá nógu mikið og við vorum að fá þvinguð skot. Varnarlega vorum við fínir á köflum en þeir hittu rosalega vel.“

„Mér fannst fyrsti leikhluti vera jafn og við vorum að setja saman mjög góðar varnir en við náðum ekki að skora í framhaldinu og í öðrum leikhluta misstum við þá frá okkur. Í svona leikjum þarftu að geta sett niður þriggja stiga skot og auðvitað hafði það áhrif hversu vel þeir hittu fyrir utan þriggja stiga línuna en ekki við. Kannski vorum við ekki að búa til nógu góð skot en ég á eftir að skoða það,“ sagði Jakob svekktur eftir leik.

Jakob taldi það hafa jákvæð áhrif á liðið frekar en neikvæð að núna sé aðeins ein umferð eftir af deildarkeppninni og KR-ingar þurfa á sigri að halda ef þeir ætla í úrslitakeppnina. 

„Ég hef engar áhyggjur og ég vona að þetta muni vera jákvætt fyrir okkur. Vonandi mun þetta gefa okkur kraft að klára mótið vel og koma okkur inn í úrslitakeppnina,“ sagði Jakob að lokum en viðtalið má sjá hér fyrir neðan. 

„Vissum að ef við myndum mæta einbeittir þá yrði þetta langt kvöld fyrir þá“

Kristófer Acox, fyrirliði Vals, lyfti bikarnumVísir/Pawel Cieslikiewicz

Kristófer Acox, fyrirliði Vals, var í skýjunum eftir átján stiga sigur gegn KR í bikarúrslitunum.

„Við komum með sama hugarfar og við höfum verið með í síðustu leikjum eins og á móti Keflavík á miðvikudaginn. Við vissum að þetta yrði erfitt sama hvað en við vissum líka að ef við myndum mæta einbeittir þá yrði þetta langt kvöld fyrir þá.“

„Augnablikið var með okkur í öðrum leikhluta sem við náðum að taka með okkur inn í hálfleikinn og við komum flatir út úr þriðja leikhluta kannski slökuðum við aðeins á en við fengum stór skot frá Frank Booker og eiginlega öllum. Við náðum að halda góðu forskoti og síðan var bara spurning um að klára þetta í fjórða leikhluta,“ sagði Kristófer afar ánægður með spilamennsku liðsins.

KR byrjaði seinni hálfleik af krafti en Valsmenn létu það ekki slá sig út af laginu og Kristófer hrósaði liðinu fyrir það.

„Það er það sem er erfiðast í þessu. Þegar þú veist að það ekki ennþá tuttugu mínútur eftir af leiknum og þeir áttu gott áhlaup í upphafi þriðja leikhluta og ég var ánægður með hvernig við svöruðum því.“

Kristófer hefur verið afar sigursæll á sínum ferli á Íslandi og var afar ánægður með að hafa unnið bikarmeistaratitilinn í annað skipti sem leikmaður Vals.

„Það var mjög gaman að vinna þennan bikar í annað skipti. Það eru blendar tilfinningar þar sem þetta var gegn mínu gamla félagi og ætli þessi sé ekki bara á pari við hinn.“

Aðspurður út í hvernig það hafi verið fyrir Kristófer að vinna KR í úrslitum sagði hann að það hafi verið frábært.

„Það var frábært. Ég held að ég hafi ekki tapað fyrir KR síðan á Covid tímabilinu og vonandi get ég haldið því áfram,“ sagði Kristófer að lokum en viðtalið má sjá hér fyrir neðan. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira