Fótbolti

Svekktur með sitt hlut­skipti en gengur í takt með hópnum

Aron Guðmundsson skrifar
Stefán Teitur í leik með íslenska landsliðinu
Stefán Teitur í leik með íslenska landsliðinu vísir/Anton

Stefán Teitur Þórðar­son var svekktur með að byrja ekki fyrri leik Ís­lands gegn Kó­sovó í um­spili fyrir sæti í B-deildar Þjóða­deildarinnar í fót­bolta líkt og hver einasti leik­maður í lands­liðinu hefði verið. Hann metur mögu­leikana fyrir seinni leikinn mikla og segir að sam­staða hópsins sé það sem geti skilað liðinu langt.

Ís­land tapaði fyrri leiknum gegn Kó­sovó ytra 2-1 og þarf því að vinna upp eins marks for­ystu í seinni leik liðanna hér í Murcia á morgun.

Stefán Teitur, sem leikur með Preston North End í ensku B-deildinni byrjaði á bekknum en kom inn í seinni hálf­leik og metur frammistöðu liðsins í leiknum kafla­skipta.

„Fyrri hálf­leikur var flottur, við vorum að setja það sem að Arnar vill inn í liðið nokkuð vel. Vorum að finna miðju­mennina ágæt­lega og markið sem við skoruðum var frábært. Virki­lega vel gert hjá Ísaki og Orra. Við hefðum þurft að gera meira af þessu en þetta tekur smá tíma. Við þurfum að læra mjög hratt og við þurfum bara að full­komna það sem við eigum að gera í næsta leik.“

Líkt og aðrir leik­menn liðsins hefðu verið var Stefán Teitur svekktur með að byrja á bekknum í fyrsta lands­leik Ís­lands undir stjórn Arnars Gunn­laugs­sonar.

„Já hundrað pró­sent svekktur en svona er þetta. Miðjan er ein af þeim stöðum hjá okkur núna sem er gríðar­leg sam­keppni í. Við erum með marga leik­menn sem eru að spila mjög vel í sínum félagsliðum. Svona er þetta bara, maður þarf að vera klár og ég tel að við komum allir inn í lands­liðs­verk­efni með það hugar­far að það er hópurinn sem skilar okkur langt. Það sást í fyrri leiknum að við þurfum að vera klárir þegar að við komum inn á og reyna að breyta leikjum. Því miður gerðist það ekki þannig séð í fyrri leiknum en við þurfu bara að halda áfram. “

Klippa: Stefán svekktur en segir samkeppnina mikla

Viðtalið við Stefán Teit í heild sinni, þar sem að hann ræðir mögu­leika Ís­lands fyrir seinni leikinn, inn­komu Arnars Gunn­laugs­sonar og endur­komu Jóhanns Bergs sem og félagsliða­boltann í Eng­landi með Preston North End má sjá hér fyrir neðan.

Seinni leikur Ís­lands og Kó­sovó í um­spili fyrir sæti í B-deild Þjóða­deildarinnar verður sýndur í beinni út­sendingu og opinni dag­skrá á Stöð 2 Sport á morgun og hefst klukkan fimm. Upp­hitun fyrir leikinn hefst hálftíma fyrr, nánar til­tekið klukkan hálf fimm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×