Van der Vaart, sem er fyrrverandi leikmaður Real Madrid og Tottenham, hefur tekið að sér hlutverk sparkspekings eftir að ferlinum lauk.
Eftir fyrri leik einvígis Spánar og Hollands, sem fór 2-2 í Rotterdam, setti hann út á látbragð Yamal sem þrátt fyrir að vera aðeins 17 ára er kominn í stórt hlutverk hjá Barcelona og Evrópumeisturum Spánar.
Ekki hrifinn af látbragðinu
„Ég sé hluti sem að angra mig svolítið. Buxurnar aðeins neðar, ekki að leggja sig mikið fram, svolítið yfirborðskennt látbragð,“ sagði Van der Vaart og bætti við:
„Þá hugsar maður með sér: Ef þú ert svona ungur þá ættir þú að vera ánægður með hverja mínútu sem þú færð að spila fyrir spænska landsliðið. Það skiptir ekki máli hversu góður þú ert, á þessum aldri þarftu að sanna það hverja mínútu í hverjum leik.“
Yamal skoraði svo í framlengingu í 3-3 jafntefli í seinni leiknum og ekki kom að sök þó að hann klikkaði á sínu víti í vítaspyrnukeppninni því Spánn vann og komst í undanúrslitin sem fram fara í júní.
Yamal birti svo mynd af sér eftir leik, með stuttbuxurnar neðar en vanalega, ásamt skjáskoti af Van der Vaart og skrifaði: „Stuttbuxurnar niðri, mark, víti sem klikkaði og INN Í UNDANÚRSLITIN, ÁFRAM SPÁNN!“

Hætta á að menn haldi að heimurinn snúist í kringum þá
Hollendingurinn lét þetta ekki slá sig út af laginu og sagði við Ziggo Sports að mun meira hefði verið gert úr ummælum sínum en tilefni hefði verið til:
„Ég myndi veita honum það ráð að vera ekki að pæla í því sem aðeins of feitur, fyrrverandi leikmaður segir. Það skiptir engu máli. Ég meina vel. Þegar menn eru 17 ára og fá svona mikið hrós þá fara þeir að halda að heimurinn snúist í kringum þá. Við höfum öll verið þar en heimurinn snýst ekkert í kringum mann. Fótbolti er skemmtilegur en ekki mikilvægur. Ef þú heldur að þú sért Guð þá verður þú ekki eins skemmtileg manneskja,“ sagði Van der Vaart.