Samtök smáframleiðenda matvæla voru með aðalfund sinn á Hótel Selfossi í gær en samhliða aðalfundinum eða síðdegis á fimmtudag var haldinn matarmarkaður, sem var öllum opin á hótelinu. Fjölmargir mættu til að kynna sér framleiðsluna og fengu að smakka á afurðum smáframleiðenda.
Einn framleiðandi og frumkvöðull vakti sérstaka athygli með sína vöru en það er roðsnakk en 19 ára frumkvöðulinn heitir Jóhann Tómas Portal og er úr Laugardal í Reykjavík.
„Ég er hérna með nýja vöru, Roðsnakk. Þetta er snakk unnið úr þorskroði, sem er 63 % prótein, kollagen ríkt og nóg af ómega þrjú og vítamíni. Þetta er bara vonandi nýja æðið,” segir Tómas.
En hvað kom til að Jóhann Tómas fór út í þessa framleiðslu?
„Þetta byrjaði í menntaskóla fyrir þremur árum þar sem ég tók þátt í ungir frumkvöðlar og svo hef ég bara verið að halda áfram með þetta verkefni síðan þá og þetta hefur bara stækkað og stækkað. Fyrst fáum við roð frá Brim og þurrkum það svo hjá Von og svo vinnum við það og breytum því í snakk hjá Matís,” segir Tómas.
Og þú ert bara 19 ára gamall?
„Já, ég er bara 19 ára fæddur 2005.”

Og Tómas hefur þetta að segja um unga frumkvöðla á Íslandi.
„Mér finnst eins og vanti frumkvöðlaandann í mína kynslóð. Fólk er svolítið komið á það að gamla kynslóðin gerir fyrirtækið, ekki núverandi kynslóð, þau fatta ekki að við þurfum líka að gera eitthvað nýtt, við þurfum að skapa.”
