Þetta kom fram í myndbandsávarpi Musks á fundi stjórnmálaflokksins Bandalagsins (i. Lega) á Ítalíu, þar sem formaður flokksins, Matteo Salvini, spurði hann meðal annars út í tollamálin.
Bandalagið er þjóðernissinnaður hægri flokkur sem er í ríkisstjórn á Ítalíu ásamt tveimur öðrum hægri flokkum, Bræðralagi Ítalíu og Forza Italia.
Musk, sem stýrir bandarísku hagræðingar- og niðurskurðarstofnuninni DOGE og er náinn samstarfsmaður Trumps, hefur talað vel bæði um Bræðralag Ítalíu flokk forsætisráðherrans Giorgiu Meloni, og Bandalagið (Lega).
Vill fríverslun og aukið atvinnufrelsi
„Ég vona að menn séu sammála um að best væri að viðskipti milli Bandaríkjanna og Evrópu myndu þróast í átt að tollaleysi, og að til verði einhverskonar fríverslunarsvæði milli Evrópu og Norður-Ameríku,“ sagði Musk.
Þá sagðist hann einnig vilja sjá aukið ferða- og atvinnufrelsi milli Bandaríkjanna og Evrópu.
„Ef fólk vill vinna í Evrópu eða Norður-Ameríku, finnst mér að það ætti að vera hægt. Þetta hefur verið mín ráðgjöf til forsetans,“ sagði Musk.
Í dag byrjuðu tollverðir í Bandaríkjunum að innheimta tíu prósenta toll á allar vörur sem fluttar eru einn til Bandaríkjanna. Eftir viku munu tollarnir hækka enn frekar hjá 57 löndum. Tollar sem taka gildi gagnvart Evrópusambandinu verða 20 prósent.
Giancarlo Giorgetti, fjármálaráðherra Ítalíu úr Bandalagsflokknum (Lega), hefur sagt að ríkisstjórn Ítalíu vilji leita lausna í tollamálunum, og varaði við því að fara leggja gagntolla á Bandaríkin og stuðla að frekari stigmögnun viðskiptastríðs.
Viðskiptajöfnuður milli Bandaríkjanna og Ítalíu er Ítalíu í hag.
Elon Musk hjólaði í Peter Navarro, einn ráðgjafa Trumps í tollamálum, í nokkrum færslum á X í dag. Þar birtist stutt myndband þar sem Peter, sem er með doktorsgráðu í hagfræði frá Harvard, færði rök fyrir því að nýir tollar ríkisstjórnarinnar væru skynsamlegir.
Musk sagði meðal annars að doktorsgráða frá Harvard væri einskis virði.
„Hann hefur ekki búið neitt til,“ sagði hann.