Enski boltinn

Salah skrifar undir tveggja ára samning við Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sagan heldur áfram. Mohamed Salah heldur kyrru fyrir á Anfield.
Sagan heldur áfram. Mohamed Salah heldur kyrru fyrir á Anfield. getty/Andrew Powell

Eftir mikið japl, jaml og fuður er ljóst að Mohamed Salah verður áfram hjá Liverpool. Hann hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við félagið.

Samningur Salahs við Liverpool átti að renna út eftir tímabilið og óvíst var hvort hann yrði áfram hjá félaginu.

Þeirri óvissu hefur nú verið eytt en í morgun tilkynnti Liverpool að Egyptinn hefði framlengt samning sinn við félagið um tvö ár.

„Auðvitað er ég mjög spenntur. Við erum með frábært lið núna,“ sagði Salah eftir að hafa skrifað undir nýja samninginn.

Liverpool keypti Salah frá Roma 2017. Hann hefur síðan þá leikið 393 leiki fyrir Bítlaborgarliðið, skorað 243 mörk og gefið 109 stoðsendingar. Salah er þriðji markahæsti leikmaður í sögu Liverpool.

Á tíma sínum hjá Liverpool hefur Salah unnið allt sem hægt er að vinna með félaginu, meðal annars Meistaradeild Evrópu og ensku úrvalsdeildina.

„Ég hef spilað hér í átta ár. Vonandi verða þau tíu. Ég nýt lífsins og fótboltans hér. Ég hef átt mín bestu ár á ferlinum hérna,“ sagði Salah.

Liverpool er með ellefu stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Salah er bæði marka- og stoðsendingahæsti leikmaður hennar í vetur. Hann hefur skorað 27 mörk og lagt upp sautján.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×