Samkvæmt jarðskjálftavef Veðurstofunnar átti skjálftinn átti upptök sín á töluverðu dýpi, eða 18,3 kílómetrum undir yfirborðinu. Skjálftar á þessu svæði eru nokkuð djúpir, yfirleitt á um 15-20 kílómetra dýpi. Engin önnur skjálftavirkni hefur fylgt í kjölfar þessa skjálfta.
Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist í byggð, meðal annars inni í Skorradal og í Borgarfirði.
Steinunn Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu, sagði við Rúv að ekki um jarðskjálftahrinu að ræða þar sem aðeins einn skjálfti reið yfir. Sagði hún þó mögulegt að einhver eftirskjálftavirkni yrði á svæðinu og bendi skjálftinn til þess að áframhaldandi virkni sé á svæðinu.
Um helgina mældust tugir jarðskjálfta í Ljósufjallakerfinu á Snæfellsnesi, milli Grjótárvatns og Langavatns á Vesturlandi. Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, sagði að mögulega væri kvika á hreyfingu undir jarðskorpunni en hún væri ekki komin í skorpuna.
Um þúsund ár eru liðin frá síðasta eldgosi í Ljósufjallakerfinu.
Í byrjun árs sagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur útlit fyrir að eldgosasvæðið á Snæfellsnesi væri komið í gang. Sagði hann mestar líkur á hraungosi ekki ósvipuðum þeim sem sést hafa á Reykjanesskaganum undanfarin ár.