Erlent

Furðureiki­stjarna sem gengur horn­rétt um tvístirni

Kjartan Kjartansson skrifar
Teikning sem sýnir sporbraut reikistjörnunnar, nær hornrétt á brautir brúnu dverganna tveggja í 2M1510 (AB). Reikistjarnan fannst með VLT-sjónauka ESO í Síle.
Teikning sem sýnir sporbraut reikistjörnunnar, nær hornrétt á brautir brúnu dverganna tveggja í 2M1510 (AB). Reikistjarnan fannst með VLT-sjónauka ESO í Síle. ESO/L. Calçada

Stjörnufræðingar sem rannsökuðu óvanalegt tvístirni voru furðu lostnir þegar þeir uppgötvuðu fyrir tilviljun reikistjörnu á braut sem liggur hornrétt á sporbraut stjarnanna. Þetta er í fyrsta skipti sem slík reikistjarna finnst en tilgátur voru um að þær gætu verið að finna í alheiminum.

Það sem dró athygli stjörnufræðinganna að tvístirninu 2M1510 var ekki að þar gæti leynst óvenjuleg reikistjarna. Tvístirnið er aðeins annað tvístirni svonefndra brúnna dverga sem fundist hefur til þessa. Þeir eru nokkurs konar misheppnaðar stjörnur: massameiri en gasrisar eins og Júpíter en ekki nógu massamiklir til þess að standa undir kjarnasamuna.

Við athuganirnar urðu vísindamennirnir varir við að eitthvað hnikaði til sporbraut brúnu dverganna. Í ljós kom að það var reikistjarna á óvenjulegri braut, hornrétt á sporbraut stjarnanna tveggja. Þekkt er að reikistjörnur gangi um tvístirni en þær eru yfirleitt á braut sem er um það bil samsíða þeirri sem stjörnurnar ganga um hvor aðra.

Teikning listamanns af reikistjörnu á braut um tvo brúna dverga. Reikistjarnan gengur yfir pólsvæði stjarnanna en yfirleitt er sporbraut reikistjarna um það bil á plani við miðbaug móðurstjörnu.ESO/M. Kornmesser

Vísbendingar hafa komið fram um að hornréttar sporbrautir, eða pólbrautir, gætu verið mögulegar og efnisskífur sem mynda reikistjörnur hafa fundist á pólbraut utan um tvístirni. 2M1510b er hins vegar fyrsta staðfesta dæmið um reikistjörnu sem gengur hornrétt um tvístirni, að því er segir í tilkynningu á vef Evrópsku stjörnustöðvarinnar á suðurhveli (ESO).

„Uppgötvunin var slembilukka í þeim skilningi að athugarnir okkar voru ekki gerðar í leit að slíkri plánetu eða sporbrautargerð. Þannig er þetta mjög óvænt. Í heildina litið held ég að þetta sýni okkur stjörnufræðingum, en einnig öllum almenningi, hvað er mögulegt í þessum heillandi alheimi sem við búum í,“ segir Amaury triaud, prófessor við Háskólann í Birmingham á Englandi og einn höfunda greinar um uppgötvunina.

Vitað er að þriðju stjörnuna er að finna í 2M1510-kerfinu, langt frá tvístirninu. Hún er hins vegar talin svo langt í burtu að hún geti ekki verið orsök áhrifanna á sporbrautir brúna dverganna sem eignuð eru reikistjörnunni.


Tengdar fréttir

Yfir níu kíló­metrum á sekúndu á vindasömustu plánetunni

Skotvindur á fjarlægri fjarreikistjörnu er sá sterkasti sem nokkru sinni hefur mælst, yfir níu kílómetrar á sekúndu. Ný tækni er sögð gera stjörnufræðingum kleift að gera nákvæmari athuganir á veðri á fjarreikistjörnum á næstu árum.

Enn ein reiki­stjarnan í „bak­garði“ sól­kerfisins

Reikistjarna er fundin við næstu stöku stjörnuna í nágrenni sólkerfisins okkar. Þótt hún sé ekk lífvænleg bætist reikistjarnan í hóp smærri fjarreikistjarna sem er að finna í bakgarði okkar í alheiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×