Ísak kom Düsseldorf yfir á útivelli í dag, á 73. mínútu, með sannkölluðu þrumuskoti upp í þaknetið úr ansi þröngu færi, eftir að hann vann sjálfur boltann í vítateig heimamanna. Ísak hefur þar með skorað tíu mörk í þýsku 2. deildinni í vetur og er næstmarkahæstur hjá Düsseldorf á eftir framherjanum Dawid Kownacki sem er með tólf mörk.
Elversberg fékk hins vegar vítaspyrnu á 80. mínútu og úr henni jafnaði Carlo Sickinger metin.
Á sama tíma vann Paderborn 3-2 útisigur gegn Nürnberg en Kaiserslautern tapaði 2-0 fyrir Braunschweig.
Hamburg (52 stig) og Köln (51 stig) eru efst í deildinni og nú með leik til góða en tvö efstu liðin komast beint upp í efstu deild.
Liðið í 3. sæti fer í umspil og er baráttan afar jöfn. Elversberg, Düsseldorf og Paderborn eru núna jöfn með 48 stig í 3.-5. sæti en Kaiserslautern og Magdeburg með 46 stig og á Magdeburg leik til góða við botnlið Regensburg á morgun.
Düsseldorf á nú fjóra leiki eftir en lokaleikurinn er við Magdeburg á útivelli 18. maí.