Veður

Bjart suðvestan­til en skýjað fyrir norðan og austan

Atli Ísleifsson skrifar
Eftir hádegi verður hitinn núll til níu stig og hlýjast suðvestantil.
Eftir hádegi verður hitinn núll til níu stig og hlýjast suðvestantil. Vísir/Arnar

Veðurstofan gerir ráð fyrir austlægri eða breytilegri átt í dag, þremur til tíu metrum á sekúndu.

Á vef Veðurstofunnar segir að það verði skýjað að mestu norðan- og austanlands, og sums staðar dálítil él. Það verði hins vegar yfirleitt bjart á suðvestanverðu landinu.

„Hiti er nálægt frostmarki víða um land þegar þetta er skrifað, en eftir hádegi verður hitinn 0 til 9 stig, hlýjast suðvestantil.

Á morgun verður austan 5-13 m/s og skýjað syðst á landinu, en annars hægari og bjart veður. Hiti 2 til 10 stig að deginum, hlýjast sunnan- og suðvestantil.

Á fimmtudag gera spár ráð fyrir austan og suðaustan 8-15 m/s, skýjað að mestu og dálítil væta, en hægari og bjart með köflum norðanlands. Hiti 6 tli 13 stig yfir daginn,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Hæg breytileg átt og bjartviðri, en austan 5-13 m/s sunnanlands og skýjað með köflum. Hiti 5 til 10 stig, en allvíða næturfrost.

Á fimmtudag (sumardagurinn fyrsti): Austlæg átt 5-10, en 10-15 við suðurströndina. Skýjað og sums staðar dálítil rigning á suðaustanverðu landinu, en bjartviðri norðan- og vestanlands. Hiti frá 4 stigum austast á landinu, upp í 12 stig á Suðvesturlandi.

Á föstudag, laugardag og sunnudag: Suðaustan 8-15 og rigning með köflum, en úrkomulítið á norðanverðu landinu. Hiti 5 til 12 stig.

Á mánudag: Útlit fyrir suðvestlæga átt. Skúrir víða um land, en lengst af þurrt austantil. Hiti 6 til 12 stig að deginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×