BBC hefur eftir borgarstjóra Kænugarðs að tala slasaðra sé komin í 77 manns, og þrjátíu og einn þeirra sé á spítala.
Þá segir hann að tólf byggingar hafi orðið fyrir tjóni. Árásirnar hafi verið 24, fjórtán drónaárásir og tíu eldlflaugar.
Rússar standi í vegi fyrir friði
Andrii Sybiha utanríkisráðherra Úkraínu segir í færslu á samfélagsmiðlum að árásirnar sýni fram á að það séu Rússar sem standi í vegi fyrir friði, ekki Úkraínumenn.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í færslu á samfélagsiðlum í gær að yfirlýsingar Selenskís stæðu í vegi fyrir því að friðarviðræður gætu þokast áfram.
Selenskí hafði þá sagt að Úkraína myndi aldrei viðurkenna yfirráð Rússa á Krímsskaga.
„Þessi yfirlýsing er skaðleg friðarviðræðunum við Rússa. Krímsskagi glataðist fyrir mörgum árum þegar Obama var forseti og hann er ekki einu sinni til umræðu ... ef Úkraínumenn vilja Krímsskaga, af hverju börðust þeir ekki fyrir honum fyrir ellefu árum síðan, þegar hann var afhentur Rússum án þess að hleypt væri af byssuskoti?“ sagði Trump á Truth Social.
Enn fremur sagði hann að Selenskí gæti valið frið eða barist áfram í þrjú ár í viðbót, þangað til hann tapar öllu landinu.
