„Þá er veturinn formlega að baki og sumarið hefur tekið við! Af því tilefni vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetja ökumenn, sem það á við, að skipta út nagladekkjunum,“ segir í færslu embættisins á vef lögreglunnar.
Í ljósi tíðarfarsins undanfarið og veðurspár næstu daga sé óþarfi að vera á nagladekkjunum núna, en frá og með mánudeginum 5. maí geti ökumenn bifreiða búnum nagladekkjum, átt von á sekt. Til samanburðar hóf embættið að beita sektum nokkru seinna í fyrra, eða þann 13. maí.
Þá birtir lögreglan mynd sem tekin var um miðjan dag á einu dekkjaverkstæða borgarinnar í fyrradag. Þá hafi verið lítill sem enginn biðtími þegar rennt var í röðina til að skipta út nagladekkjunum.
