Þetta sögðu forsvarsmenn Leyniþjónustu Suður-Kóreu (NIS) þingmönnum á fundi í morgun.
Kim og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, skrifuðu í sumar undir varnarsamkomulag og hafa Rússar fengið mikið magn hergagna, skotfæra, stórskotaliðsvopna og eldflauga frá Norður-Kóreu til að nota við innrásina í Úkraínu.
Suðurkóreumenn telja samkvæmt Yonhap fréttaveitunni að í staðinn hafi Kim fengið aðgang að skotpalli til að skjóta njósnagervihnöttum á braut um jörðu, drónatækni, búnað til að trufla raftæki og staðsetningartæki og loftvarnarkerfi.
Einnig hafa átt sér stað viðræður milli ríkjanna um frekari samvinnu varðandi nútímavæðingu iðnaðar í Norður-Kóreu og samvinnu í orkumálum og ferðamennsku. Sérfræðingar NIS segja að um fimmtán þúsund farandverkamenn hafi verið sendir frá Norður-Kóreu til Rússlands.
Sjá einnig: „Það er bara áfram og áfram“
Fyrstu hermennirnir voru sendir frá Norður-Kóreu til Rússlands í október en reynt var að fela þátttöku þeirra í átökunum í Kúrskhéraði í Rússlandi með því að útvega þeim rússneska herbúninga og vegabréf sem segja mennina frá austurhluta Rússlands. Það var ekki fyrr en í þessari viku sem ráðamenn í Kreml og Í Pyongyang viðurkenndu að hermennirnir hefðu verið sendir.
„Rússneska þjóðin mun aldrei gleyma hugrekki sérsveita Norður-Kóreu,“ sagði Pútín í yfirlýsingu í vikunni.
Photo and videos of North Korean soldiers, including training with shotguns to counter UAVs. 2/https://t.co/INRNDtCRNShttps://t.co/YwKV7zrLqihttps://t.co/pxmlBC6ieR pic.twitter.com/O5fgBeHp6F
— Rob Lee (@RALee85) April 28, 2025
Kimdátarnir tilheyra sérsveit norður-kóreska hersins sem þjálfuð er til að berjast bak við víglínuna í stríði við Suður-Kóreu, með skemmdarverkum og banatilræðum, svo eitthvað sé nefnt.
Frá því úkraínskir hermenn hörfuðu að mestu frá Kúrskhéraði hafa hermennirnir norðurkóresku sjaldnar tekið þátt í átökum. Hermennirnir eru þó enn í Rússlandi og NIS vill ekki útiloka að fleiri hermenn verði sendir til Rússlands.