Í viðtalinu segir Harry föður sinn, Karl III Bretakonung, neita að tala við hann af öryggisástæðum. Hann segist ólmur vilja grafa stríðsöxina með fjölskyldu sinni, enda viti hann ekki hve lengi faðir hans lifir. Þrátt fyrir deilurnar fyrirgæfi hann fjölskyldunni allt.
Harry tapaði í dag dómsmáli gegn breska ríkinu sem snerist um hve mikilli öryggisgæslu fjölskylda hans á rétt á meðan hún dvelur í Bretlandi. Hann sagðist í samtali við BBC svekktur yfir niðurstöðunni.
„Eins og staðan er núna sé ég ekki fyrir að geta komið með fjölskylduna mína til Bretlands,“ sagði Harry eftir að niðurstaðan varð ljós.
Strandaði á málaferlunum
Rúm fimm ár eru síðan Harry og Megan hertogaynja, eiginkona hans, sögðu skilið við bresku konungsfjölskylduna og fluttu til Bandaríkjanna. Í framhaldinu voru þær breytingar gerðar að fjölskyldan ætti ekki. Breytingarnar leiddu til þess að Harry höfðaði mál gegn breska ríkinu og var dómsuppkvaðning í dag í Hæstarétti í Lundúnum. Niðurstaðan var sú að ekki yrði haggað við reglunum.
Í tilkynningu frá Buckingham-höll vegna málsins segir að ágreiningsefnið hafi margsinnis verið rannsakað vandvirknislega og að í hvert sinn hafi dómstólar komist að sömu niðurstöðu.
Í viðtalinu sagði Harry að fyrst málið hefði verið leitt til lykta gæti mögulega myndast vettvangur til sátta. Hugsanlegar sættir hefðu alltaf strandað á málaferlunum.
„Mér og fjölskyldunni minni hefur greint á svo oft. [...]. Ég er tilbúinn að fyrirgefa þeim,“ segir Harry.
„Mér þætti frábært að sættast. Það er enginn tilgangur í því að halda ósætttinu áram, lífið er svo dýrmætt.“