Lagið fræga er reglulega sungið af íþróttamönnum sem vinna til verðlauna, eitthvað sem Harry Kane hafði aldrei gert fyrr en í gær. Gleðin var því gríðarleg þegar leikmenn Bayern tóku lagið saman í gær, hjá Kane sem söng af mikilli innlifun, en engu síður hjá Eric Dier, sem var einnig að fagna sínum fyrsta titli á ferlinum.
We are the Champions!! 🏆 pic.twitter.com/YYHC7k6ldU
— Harry Kane (@HKane) May 4, 2025
Kane, sem er markahæsti leikmaður Englands og Tottenham frá upphafi, hafði tapað úrslitaleik Meistaradeildarinnar og deildabikarsins á sínum tíma með Tottenham, auk tveggja tapa í úrslitaleikjum á EM með enska landsliðinu.
You deserve it, boys! ❤️ #MiaSanMeister pic.twitter.com/HJ1fEEnPkY
— FC Bayern (@FCBayernEN) May 4, 2025
Hann gekk til liðs við Bayern fyrir síðasta tímabil og treysti væntanlega á öruggan titil enda liðið orðið Þýskalandsmeistari ellefu ár í röð þar áður. Bayer Leverkusen kom hins vegar í veg fyrir það með hreint ótrúlegu, taplausu tímabili. Þrátt fyrir að Kane hafi sett markamet og skorað 36 mörk í deildinni.
Hann hefur ekki verið eins drjúgur í markaskorun á þessu tímabili, aðeins með 24 mörk þegar tveir leikir eru eftir, en veltir sér líklega lítið upp úr því.
Vegna þess að eftir rúmlega sjö hundruð leiki á sínum ferli fyrir félags- og landslið er Harry Kane loksins orðinn meistari og laus við þann vonda stimpil að hafa aldrei unnið titil.