RÚV greindi frá því í Kastljósi í gær að gögn úr símahlerunum í tengslum við rannsóknir sérstaks saksóknara voru í höndum eigenda fyrirtækis fyrrverandi lögreglumanna. Gögn sem aldrei hafi átt að fara í dreifingu. Fyrirtækið, PPP, reyndi að selja þjónustu sína á grundvelli „þekkingar á afbrotaheiminum“.
Eftir þáttinn skrifaði Þorvaldur, sem er fyrrverandi bankamaður og var til rannsóknar hjá embættinu eftir hrun, færslu þar sem hann sagðist vera að íhuga réttarstöðu sína.
„Þegar skip fer niður og sekkur þá er það vanalega skipstjórinn sem ber efstu ábyrgð og það hlýtur að vera Ólafur Hauksson og þeir sem stýrðu þeim hlustunum sem voru framkvæmdar á þessu árabili þarna eftir hrun,“ sagði Lúðvík svo í kvöldfréttum Rúv í kvöld.
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld sagði Þorvaldur Lúðvík: „Hvað ætlar æðsti maður dómsmála í landinu og sérstakur saksóknari að gera til að við fáum mögulega tiltrú á að starfshættir séu í samræmi við lög og reglur.“
Ekki borið neina ábyrgð þegar Niceair sökk
Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólameistari á Laugum og einn þekktasti íþróttalýsandi landsins, fylgdist með kvöldfréttum Rúv og misbauð málflutningur Lúðvíks svo að hann skrifaði færslu á Facebook. Hann lýsir því þar hvernig Lúðvík bar enga ábyrgð þegar Niceair fór á hausinn.
„Þetta finnst mér magnað. Þessi maður (Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson) segir að þegar skipið fari niður beri skipstjórinn ábyrgðina (í hans tilfelli Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari) alveg sama þó skipstjórinn hafi í raun ekki gert neitt rangt og reynt að fylgja öllum reglum,“ skrifar Sigurbjörn í færslunni.
Þorvaldur Lúðvík hafi hins vegar ekki borið neina ábyrgð þegar Niceair „sökk (eða brotlenti) og ég sat uppi með yfir 500.000 kr í tap í viðskipum við hann,“ skrifar Sigurbjörn.
Sigurbjörn hafði keypt sér 10 miða klippikort á 350 þúsund krónur frá Niceair og það átti að nota í sex leggi. Miðarnir voru fermingargjöf til sonar hans, fjölskylduferð til Kaupmannahafnar, sem þurfti að kaupa aftur.
„Hann bar nákvæmlega enga ábyrgð og vísaði á spænskt fyrirtæki sem gerir ekkert með úrskurði samgöngustofu (mér voru dæmdar fullar bætur). Þeir sem búa í glerhúsi ættu að spara grjótkastið (þó svo að ég sé ekki að bera saman hlerunarleka og flugfargjöld),“ skrifar Sigurbjörn í færslunni.
Þorvaldur Lúðvík sagði ástæður þrots Niceair mega að flestu rekja til „sviksamlegra viðskipta erlends samstarfsaðila“ sem gerði félaginu ókleift að starfa áfram. HiFly, erlendur flugrekstraraðili Niceair, hafði áður misst einu flugvél sína vegna vanskila við eigendur hennar sem gerði að verkum að Niceair gat ekki haldið rekstrinum áfram.