Upp­gjörið: Porrino - Valur 29-29 | Jafnt í fyrri leiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst á vellinum með ellefu mörk.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst á vellinum með ellefu mörk. vísir/vilhelm

Porrino og Valur skildu jöfn, 29-29, í fyrri leik liðanna í úrslitum EHF-bikars kvenna í handbolta. Seinni leikurinn fer fram á Hlíðarenda eftir viku.

Valskonur leiddu nær allan tímann og náðu mest fimm marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks. Spánverjarnir unnu þann mun upp og leikurinn var í járnum eftir það.

Elín Rósa Magnúsdóttir kom Val yfir, 28-29, þegar rúmar tuttugu sekúndur voru eftir en Micaela Casasola jafnaði með síðasta skoti leiksins, 29-29.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði ellefu mörk fyrir Val, þar af átta af vítalínunni þar sem hún sýndi gríðarlegt öryggi. Elín Rósa skoraði fimm mörk. Hafdís Renötudóttir varði fimmtán skot í marki Valskvenna (36 prósent).

Casasola skoraði tíu mörk fyrir Porrino, þar af sex úr vítum, og Aitana Santome Santos sex.

Jafnræði var með liðunum framan af leik en Valskonur voru þó jafnan á undan að skora. Vörn Íslandsmeistaranna var sterk og Hafdís byrjaði vel í markinu.

Casasola jafnaði metin í 5-5 úr vítakasti en Valur skoraði næstu þrjú mörk leiksins og náði frumkvæðinu.

Valssóknin gekk mjög vel með Elínu Rósu í miklum ham. Hún skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik og fiskaði fjögur víti. Alls fengu Valskonur sex víti í fyrri hálfleik. Þórey Anna skoraði úr fimm þeirra og Ásdís Þóra Ágústsdóttir úr einu.

Sóknarleikur Porrino lagaðist eftir því sem líða tók á fyrri hálfleikinn. Spánverjarnir skoruðu ekki í níu mínútur en gerðu svo sex mörk á síðustu sjö mínútum fyrri hálfleiks. Þrátt fyrir það minnkuðu þeir muninn ekkert þar sem sóknarleikur Vals var beittur.

Casasola minnkaði muninn í 12-15 úr víti og Valur hafði fimm sekúndur til að skora sitt sextánda mark og fara með fjögurra marka forskot til búningsherbergja. Það dugði Theu Imani Sturludóttur og staðan í hálfleik því 12-16, Val í vil.

Sigríður Hauksdóttir kom Val fimm mörkum yfir, 13-18, í upphafi seinni hálfleiks en þá tók við versti kafli Íslandsmeistaranna í leiknum. Þeir töpuðu boltanum í fjórum sóknum í röð, þar af Elín Rósa, þrisvar, áttu svo eitt misheppnað skot og Porrino jafnaði í 18-18 og svo aftur í 19-19.

Valskonur voru fljótar að ná áttum eftir þetta og voru á undan að skora næstu mínútur. Sóknarleikur beggja liða gekk vel en markvarslan var lítil og Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, kippti Hafdísi meira að segja af velli í smá stund.

Þórey Anna kom Val í 26-27 en Porrino skoraði næstu tvö mörk, 28-29. Í næstu sókn Vals fékk Ekaterina Zhukova sína þriðju brottvísun og Þórey Anna jafnaði úr horninu með sínu ellefta marki.

Hafdís varði frá Paulinu Pérez Buforn í næstu sókn og Valur fékk tækifæri til að komast yfir. Og Elín Rósa gerði það eftir afar vel útfærða sókn. 

Spánverjarnir tóku leikhlé þegar tuttugu sekúndur voru eftir og Casasola jafnaði með síðasta skoti leiksins. Lokatölur 29-29 og allt opið fyrir seinni leikinn eftir viku.

Atvik leiksins

Síðasta mark fyrri hálfleiks. Eftir að Porrino minnkaði muninn í 12-15 tók Valur leikhlé þegar fimm sekúndur voru eftir. Thea nýtti þessar fimm sekúndur til hins ítrasta, skoraði og kom Valskonum fjórum mörkum yfir, 12-16.

Stjörnur og skúrkar

Þórey Anna var frábær í leiknum. Hún nýtti öll átta vítin sín og skoraði auk þess þrjú mörk utan af velli. Elín Rósa átti sömuleiðis gríðarlega góðan leik, fyrir utan kaflann í upphafi seinni hálfleiks þegar Porrino vann forskot Vals upp. Hafdís byrjaði og endaði vel í marki Íslandsmeistaranna en hefur oft verið betri. Thea og Lovísa Thompson reyndu lítið sjálfar en spiluðu vel fyrir liðið. Hildigunnur Einarsdóttir átti svo flotta kafla í vörninni.

Sigríður skoraði úr fyrstu þremur skotunum sínum en fór illa að ráði sínu á lokakaflanum. Hún klikkaði þá á þremur skotum og tapaði boltanum auk þess einu sinni. 

Dómararnir

Grikkirnir Ioannis Fotakidis og Charalampos Kinatzidis voru strangir en góðir í leiknum í dag. Valskonur fengu átta brottvísanir og Spánverjarnir fjórar og dómararnir voru grimmir að setja höndina á loft til merkis um yfirvofandi leiktöf. En þeir Fotakidis og Kinatzidis komust vel frá sínu. 

Umgjörð og stemmning

Rúmlega tvö þúsund manns voru í Pavillón Municipal do Porrino og stemmningin var með fínasta móti. Vonandi verður hún enn betri á Hlíðarenda eftir viku.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira