Huijsen var með klásúlu í samningi sínum við Bournemouth sem gerði hann falan fyrir 50 milljónir punda, eða um 8,7 milljarða króna, og á vef Bournemouth segir að spænska félagið hafi virkjað þá klásúlu.
Tvö fyrri félög Huijsens fá hluta af kaupverðinu, samkvæmt frétt BBC, því Juventus fær 10% og Malaga 5%.
Real vildi klára kaupin í tæka tíð fyrir HM félagsliða í júní og hefur nú fengið það í gegn að Huijsen verði leikmaður liðsins 1. júní. Hann skrifaði undir samning sem gildir til næstu fimm ára.
Huijsen er aðeins tvítugur en hefur þegar spilað sína fyrstu landsleiki fyrir Spán og verið lykilmaður á sögulegu tímabili Bournemouth í vetur en liðið hefur þegar slegið stigamet sitt í ensku úrvalsdeildinni. Hann er tilnefndur sem besti ungi leikmaður tímabilsins.
Huijsen á eftir tvo leiki með Bournemouth áður en hann yfirgefur félagið en liðið mætir Manchester City á þriðjudaginn og svo Leicester í lokaumferðinni eftir rúma viku. Liðið er í 10. sæti og á enn von um Evrópusæti takist liðinu að fara upp fyrir Brentford og Brighton sem eru tveimur stigum ofar.