Erlent

Borga fyrir skot­færi til Úkraínu með frystum eigum Rússa

Samúel Karl Ólason skrifar
Antti Hakkanen, varnarmálaráðherra Finnlands.
Antti Hakkanen, varnarmálaráðherra Finnlands. EPA/KIMMO BRANDT

Ráðamenn í Finnlandi tilkynntu í dag að þær ætli að nota níutíu milljónir evra af vöxtum frá frosnum sjóðum Rússa til að fjármagna kaup á skotfærum fyrir Úkraínumenn á þessu ári.

Forsvarsmenn Evrópusambandsins áætla að um 210 milljarðar evra, af um þrjú hundruð milljörðum sem voru frystir á Vesturlöndum eftir innrásina í Úkraínu 2022, séu innan landamæra bandalagsins. Að mestu er um að ræða ríkisskuldabréf sem Rússar notuðu sem varasjóði.

Níutíu milljónir evra samsvara um 13,1 milljarði króna. 210 milljarðar evra samsvara um 30,6 billjónum króna (30.600.000.000.000).

Framkvæmdastjórn ESB samþykkti í fyrra að leyfa að nota vexti af þessum eigum til að fjármagna hergagnakaup fyrir Úkraínumenn.

Ráðamenn í Rússlandi hafa mótmælt því harðlega að eigur þeirra séu notaðar með þessum hætti. Þeir hafa ítrekað sagt að tilraunir til að selja frystar eigur þeirra eða leggja hald á þær væri ólöglegt og slíkt myndi setja slæmt fordæmi.

Reuters hefur eftir Antti Hakkanen, varnarmálaráðherra Finnlands, að milljónirnar níutíu verði notaðar til að fjármagna skotfæraframleiðslu í Finnlandi.

Mörg ríki Evrópu stefna á umtalsverða aukningu í fjárútlátum til varnarmála og samhliða því á að auka hergagnaframleiðslu í Evrópu til muna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×