Fótbolti

Ó­sáttur með fáar mínútur í úr­slitunum og í­hugar fram­tíðina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alejandro Garnacho var ekki sáttur við að vera geymdur á bekknum lengst af í úrslitum Evrópudeildarinnar.
Alejandro Garnacho var ekki sáttur við að vera geymdur á bekknum lengst af í úrslitum Evrópudeildarinnar. Ryan Pierse/Getty Images

Alejandro Garnacho, leikmaður Manchester United, virðist vera heldur ósáttur við spilaðar mínútur í úrslitum Evrópudeildarinnar í gær og íhugar nú framtíð sína hjá félaginu.

Garnacho byrjaði á varamannabekk United er liðið mætti Tottenham í úrslitum Evrópudeildarinnar í gær. Hann kom inn á þegar tæpar tuttugu mínútur voru til leiksloka, en þá var staðan orðin 1-0, Tottenham í vil, sem urðu svo lokatölur. 

Hinn tvítugi Garnacho, sem var orðaður við lið á borð við Chelsea og Napoli í janúarglugganum, var sem áður segir á bekknum þegar flautað var til leiks, en í hans stað fékk Mason Mount sæti í byrjunarliðinu.

Garnacho virtist heldur ósáttur við ákvörðun þjálfarans Rubens Amorim og gagnrýndi Portúgalan í leikslok.

„Alveg fram að úrslitaleiknum spilaði ég í hverri umferð og hjálpaði liðinu að komast hingað. En í kvöld spila ég bara tuttugu mínútur. Ég veit ekki,“ sagði Garnacho að leik loknum.

„Þessi úrslitaleikur mun hafa áhrif á mína ákvörðun, en líka allt tímabilið og staða félagsins. Ég ætla að reyna að njóta sumarsins og sjá svo til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×