Enski boltinn

Gæti hætt við að fara til Man Utd eftir tapið gegn Totten­ham

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mun Delap fagna í rauðu á næstu leiktíð?
Mun Delap fagna í rauðu á næstu leiktíð? Bradley Collyer/Getty Images

Liam Delap virtist ákveðinn í að fara til Manchester United í sumar, það var áður en Rauðu djöflarnir töpuðu fyrir Tottenham Hotspur í úrslitum Evrópudeildar karla í knattspyrnu. Nú eru Chelsea og Newcastle United einnig í myndinni hjá þessum 22 ára gamla framherja.

Delap hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu sína með liði Ipswich Town sem féll þó nokkuð örugglega úr ensku úrvalsdeildinni. Í 36 deildarleikjum á leiktíðinni hefur hann skorað 12 mörk og gefið tvær stoðsendingar.

Það virtist næsta víst að hann myndi ganga í raðir Man United en nú greinir Sky Sports frá því að tap liðsins gegn Tottenham, og þar með engin þátttaka í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð, gæti fengið Delap til að skipta um skoðun.

Í frétt miðilsins segir að bæði Chelsea og Newcastle United séu áhugasöm. Þau eru sem stendur í Meistaradeildarsæti en baráttan um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð er hörð og ræðst ekki fyrr en á sunnudag hvaða lið munu ná því.

Delap er falur fyrir 30 milljónir punda eða 5,2 milljarða íslenskra króna. Er það talið gjafverð af stærstu liðum Englands og ljóst að það hann mun geta valið úr tilboðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×