Eftir 2-0 sigur á útivelli gegn FK Haugesund í gær ferðaðist Brann liðið aftur heim til Bergen með rútu og svo bílaferju hluta leiðar. Það gerðu stuðningsmenn Brann liðsins einnig og sökum úrslita leiksins voru þeir hinir allra kátustu um borð í ferjunni.
Í frétt Bergens Avisen segir að leikmenn Brann hafi ætlað sér að verja tímanum í ferjunni inni í rútunni í stað þess að spóka sig um í ferjunni meðal stuðningsmanna í gleðinni. Það hafi hins vegar ekki verið raunin hjá Íslendingnum Eggerti Aroni Guðmundssyni sem tók af skarið og heilsaði fyrstu upp á stuðningsmenn.
Eggert Aron hefur byrjað afar vel sem leikmaður Brann eftir að hann gekk í raðir liðsins frá Elfsborg í Svíþjóð fyrir tímabilið og segir í frétt Bergens Avisen að Freyr Alexandersson, þjálfari Brann liðsins hafi þurft að draga hina leikmenn liðsins úr rútunni.
„Ég sagði við þá að það myndi gera þeim gott að fara aðeins út úr rútunni og fá sér frískt loft og að það væri frábær stemning í ferjunni. Sagði þeim að heilsa upp á fólkið og að þeir mættu síðan fara aftur í rútuna eftir það.“
Ekki allir leikmenn Brann liðsins hafi farið úr rútunni en Eggert Aron gaf sér góðan tíma til þess að tala við stuðningsmenn Brann og gefa eiginhandaráritanir.
Brann hefur farið vel af stað undir stjórn Freys í norsku úrvalsdeildinni. Liðið er sem stendur í 2.sæti deildarinnar með tuttugu stig, þremur stigum á eftir toppliði Viking en með leik til góða.