Fyrirtæki fókusera á aukna sjálfvirknivæðingu, sem oft nýtir gervigreindina í bland. En sífellt fleiri fyrirtæki eru að átta sig á því hvernig gervigreindin getur nýst þeim í ákveðnum verkefnum. Oft þá þannig að fyrirtækin spara tíma, fyrirhöfn og fá jafnvel ábendingar um fleiri sjónarhorn en ella.
Allt gott og blessað en hvað kemur þetta svo sem nýútskrifuðu fólki við? Jú, samkvæmt alþjóðlegri könnun Deloitte segjast 66% stjórnenda með mannaforráð að of marga umsækjendur vanti starfsreynslu.
Sem á sérstaklega við um nýútskrifaða eða fólk sem er í námi. Því vítahringurinn verður þessi:
Unga fólkið þarf að fá atvinnutækifæri til að öðlast reynslu og reynslu til að öðlast fleiri atvinnutækifæri.
Gervigreindin er nefnilega sögð vera á hraðferð að leysa úr mörgum þeirra verkefna sem ungir og óreyndir starfsmenn sáu kannski um að sinna áður. Þess vegna sýna rannsóknir að vinnuveitendur séu oft farnir að horfa til þess að fólk sé að lágmarki með tveggja til fimm ára reynslu til að vera ráðið í hin svokölluðu „byrjendastörf“ (e. entry-level). Því vinnumarkaðurinn er einfaldlega að aðlaga sig að þessari sjálfvirknivæðingu og þá vinnu sem gervigreindin er farin að sinna; Það sem eftir stendur eru störf sem kalla á alls kyns mannlega eiginleika eða sérþekkingu, sem fólk byggir oft upp með tíma og reynslu.
Og gera má ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram; Jafnvel nokkuð hratt.
Því miður fyrir unga fólkið, sýna rannsóknir að nú þegar séu hefðbundin byrjendastörf að verða vandfundnari; færri slík störf eru í boði. Fyrirtækjum er hins vegar bent á að fara varlega í að útiloka of mikið nýútskrifaða fólkið, þótt það sé ekki komið með reynslu. Því partur af því að þróa leiðtoga morgundagsins er að sigta út hæfileikaríkt fólk sem er tilbúið til að vinna vel, læra og vaxa í starfi.
Annað sem fyrirtækjum er líka bent á er að mannlegir hæfileikar eins og samkennd, forvitni eða að vera lausnamiðaður einstaklingur eða fólk sem býr yfir seiglu segir oft meira til um líklegan árangur einstaklings í starfi heldur en hvort viðkomandi hafi einhverja reynslu sem nemur. Allt séu þetta eiginleikar sem skipti miklu máli þegar byggja á sterka liðsheild eða framtíðarleiðtoga. Mögulega séu fyrirtæki því of fljót á sér að sía úr umsækjendabunkanum fólk sem það telur ekki fullnægja þeim kröfum sem lengi hafa verið viðmiðin; Frekar sé að horfa til fleiri og annarra þátta en áður.
Miðað við þann hraða sem tækniframfarir eru að sýna sig vera á, virðast rannsóknir þó benda til þess að enn muni harðna á dalnum fyrir nýútskrifaða sem vilja stíga sín fyrstu spor fyrir alvöru í sínum starfsframa.