Paul Doyle, er 53 ára gamall, fyrrverandi landgönguliði og þriggja barna faðir. Hann var í gær ákærður í sjö liðum fyrir að keyra inn í þvöguna og slasa að minnsta kosti 79 manns. Hann er sakaður um að hafa ekið vísvitandi á fólkið.
Hann var landgönguliði frá 1990 til 1994 en starfaði eftir það við tölvuöryggi og þjónustu.
Saksóknarar sögðu mögulegt að Doyle yrði ákærður frekar á komandi vikum. Enn eigi eftir að ræða við fjölda fólks og fara yfir mikið magn sönnunargagna, samkvæmt frétt Sky News.
Ákærurnar sem hafa verið lagðar fram snúa þó eingöngu að sex manns sem hann slasaði alvarlega en einn þeirra er enn á sjúkrahúsi. Dómarinn setti mikla tálma á fjölmiðla varðandi það hver fórnarlömbin sex eru og verða frekari takmarkanir teknar fyrir í næstu viku.

Í frétt Guardian segir að Doyle hafi virst þreyttur og í ójafnvægi í dómsal í morgun. Þá hafi hann litið mjög fljótt á fjölda blaðamanna í salnum þegar hann var færður þangað inn en að öðru leyti mest litið til jarðar.
Hann talaði eingöngu til að staðfesta nafn hans og fæðingardag. Ekki kom fram hvort hann hafi tekið afstöðu gagnvart ákærunum gegn honum. Þá kom fram að hann á næst að mæta í dómsal í ágúst og að réttarhöldin sjálf eiga að hefjast í nóvember.
Saksóknarinn sagði Doyle eiga að sitja í gæsluvarðhaldi. Bæði væri öryggi hans í hættu ef honum yrði sleppt lausum og sömuleiðis væri hætta á því að hann myndi reyna að flýja.