Alpla Hard varð að sætta sig við tveggja marka tap á heimavelli á móti Krems, 30-32.
Krems var um tíma með fimm marka forystu í seinni hálfleik eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17-13. Heimamenn náðu að minnka muninn niður í eitt mark en gestirnir héldu út og fögnuðu gríðarlega mikilvægum sigri.
Alpla Hard er deildarmeistari og byrjaði því úrslitaeinvígið á heimavelli. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki verður meistari.
Tumi Steinn Rúnarsson var með fimm mörk fyrir Alpla Hard í kvöld og var næstmarkahæstur í sínu liði. Karolis Antanavicius var markahæstur með sjö mörk.
Hannes Jón Jónsson er þjálfari Alpla Hard og þarf nú að undirbúa liðið fyrir leik upp á líf eða dauða í næsta leik.