Sveindis Jane hélt upp á nýjan samning sinn í Los Angeles með frábæru marki strax á sextándu mínútu leiksins.
Íslenska liðið náði hraðri sókn og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir átti frábæra sendingu fram völlinn á Sveindísi.
Sveindís átti þó eftir að gera mikið. Hún keyrði á vörnina og kom sér inn á teiginn og skoraði síðan með lúmsku óvæntu skoti í nærhornið.
Þetta var heimsklassaafgreiðsla og sýndi hversu erfitt er við hana að eiga þegar hún kemst á flug.
Þetta var þrettánda mark Sveindísar fyrir landsliðið og það má sjá markið hennar hér fyrir neðan.
Sveindís Jane kom Íslandi yfir gegn Noregi! Karólína með alvöru sendingu inn fyrir, Sveindís keyrði á Norðmenn og skotið fór í stöngina og inn. Þarna erum við! 🇮🇸 pic.twitter.com/xxmjwwzVYv
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) May 30, 2025