Eitt þessara húsnæða er Hótel Glymur. Vinnumálastofnun tók húsnæðið á leigu í ágúst 2023 til að hýsa umsækjendur um alþjóðlega vernd. Vinnumálastofnun greiðir rúmar 4,3 milljónir mánaðarlega fyrir leigu á hótelinu.
Sjá einnig: Vinnumálastofnun leigir Hótel Glym undir allt að áttatíu flóttamenn
„Húsnæðið við Glym stendur autt þar sem mjög hefur fækkað í hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Gerður var tímabundinn óuppsegjanlegur leigusamningur við eigendur hótelsins til að fá lægra leiguverð og er stofnunin bundin af honum þar til hann rennur út 30. september næstkomandi,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, í svari til fréttastofu. Mánaðarleigan fyrir þetta úrræði er 4.353.057 krónur samkvæmt svari Unnar.
Unnur segir alla samninga stofnunarinnar vegna búsetuúrræðis sem stendur autt renna út á haustmánuðum.
Samkvæmt upplýsingum Útlendingastofnunar höfðu í maí á þessu ári borist 505 umsóknir um vernd, þar af var rúmur helmingur þeirra frá fólki frá Úkraínu sem fær umsókn sína afgreidda á grundvelli fjöldaflótta. Til samanburðar bárust í fyrra alls 1944 umsóknir um vernd, 4168 umsóknir árið 2023 og 4520 árið 2022.