Göngin eru 1.200 metra löng. Þau leysa af 400 metra háan fjallveg til þorpsins Fámjins en þar búa um áttatíu manns. Hinn gangamunninn opnast við þorpið Øravík.

Enginn vegtollur verður innheimtur í þessum göngum, frekar en öðrum jarðgöngum Færeyinga á landi í gegnum fjöll. Þar er eingöngu rukkað í neðansjávargöng milli eyja.

Göngunum var fagnað með lúðrablæstri Tvøroyrar Hornorkestur. Að loknum ræðuhöldum var öllum viðstöddum boðið að þiggja veitingar undir harmonikkuleik í samkomutjaldi sem komið hafði verið upp við höfnina í Fámjin.

Fámjin-göngin reyndust mun dýrari en búist var við. Upphaflega var áætlað að þau myndu kosta 150 milljónir danskra króna, eða um 2,9 milljarða íslenskra. Bergið sem borað var í gegnum reyndist hins vegar lélegt auk þess sem skriðuföll úr fjallinu trufluðu verkið. Reyndist endalegur kostnaður 285 milljónir danskra króna, eða um 5,4 milljarðar íslenskra króna.
Hér má heyra um lykilinn að velgengni Færeyinga í jarðgangagerð: