Tólf beiðnir voru teknar fyrir og voru ellefu þeirra samþykktar á fundi nefndarinnar. Millinafninu Hó var hafnað á þeirri forsendu að nafn sem er leitt af upphrópun, samanber hó, hæ, hí, ha og jæja, getur orðið nafnbera til ama.
Nöfnin ellefu sem voru samþykkt eru Anóra (kvk), Link (kk), Eugenía (kvk), Sesselíus (kk), Vava (kvk), Baggio (kk), Star (kvk), Kareem (kk), Míló (kk), Celina (kvk) og Bíi (kk).
Öll nöfnin taka íslenska eignarfallsendingu en tvö þeirra eru hins vegar ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, Baggio og Celina, vegna -io-endingar og notkunar á c-i. Mannanafnanefnd samþykkti Baggio af því það er ítalskt tökunafn og io-rithátturinn gjaldgengur í ítölsku og var Celina samþykkt þar sem ritháttur þess er gjaldgengur víða um heim.
Skýjakrókur, guðdómlegt tagl og tölvuleikapersóna
Nokkur nafnanna vekja sérstaklega athygli.
Þar má nefna nafnið Kareem sem er af arabískum uppruna en körfuboltamaðurinn Kareem-Abdul Jabbar er sennilega þekktasti nafnberi þess. Hann spilaði fyrir Milwaukee Bucks og Los Angeles Lakers á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Hann hét upprunalega Lew Alcindor en tók Kareem-nafnið þegar hann tók íslamstrú.
Þeir sem kannast við Baggio-nafnið hugsa án efa allir til ítalska fótboltamannsins Roberto Baggio sem var kallaður Guðdómlega taglið (Il Divin Codino) og lék við góðan orðstír hjá Inter, Juventus, Fiorentina, AC Milan, Bologna FC og Brescia.
Nafnið Link merkir auðvitað hlekkur á ensku en tölvuleikjaspilarar kannast jafnframt við það úr tölvuleikjaseríunni Zeldu þar sem spilarar stýra ljóshærðu hetjunni Link sem þarf yfirleitt að bjarga prinsessuni Zeldu.
Loks má nefna kvenmannsnafnið Anóru sem er aldagamalt en komst sérstaklega í umræðuna á síðustu mánuðum þegar gamanmyndin Anora vann til fjölda verðlauna, þar á meðal Óskarsverðlauna.
Lesa má nánar um úrskurði Mannanafnanefndar á vef Stjórnarráðsins.