Erlent

Bana­maður ráð­herra fær að stíga fæti út fyrir fangelsið

Agnar Már Másson skrifar
Anna Lindh var utanríkisráðherra úr röðum sósíaldemókrata en henni var banað árið 2003.
Anna Lindh var utanríkisráðherra úr röðum sósíaldemókrata en henni var banað árið 2003. Getty

Fyrir rúmlega tuttugu árum var maður dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að stinga utanríkisráðherra Svíþjóðar til bana. Nú hefur maðurinn fengið sérstakt leyfi til að stíga fæti út fyrir fangelsið í von um að draga úr skaðlegum áhrifum fangelsisvistarinnar.

Anna Lindh, þáverandi utanríkisráðherra úr röðum jafnaðarmanna, var 46 ára gömul þegar hún var myrt í verslunarmiðstöð í miðborg Stokkhólms 10. september árið 2003. Hún hafði þá gegnt embætti utanríkisráðherra í fimm ár en áður hafði hún gegnt embætti umhverfisráðherra.

Mijailo Mijailovic var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið og síðan þá hefur hann afplánað dóm sinn í nokkrum mismunandi fangelsum í Svíþjóð, þar á meðal í Kumla og Tidaholm. Hann hefur einnig verið vistaður á réttargeðdeildum. Mijailovic hefur einnig áður lýst yfir vilja sínum til að afplána dóm sinn í Serbíu þar sem hann segist hafa meiri tengsl þangað en til Svíþjóðar. Fangelsismálastofnun hefur hins vegar komið í veg fyrir það.

En nú hefur Mijailo Mijailovic sótt um og fengið samþykki fyrir sérstöku leyfi, svokölluðu „loftholsleyfi“ frá fangelsismálastofnun Svíþjóðar, að því er Aftonbladet greinir frá. Í gögnum frá stofnuninni sem Aftonbladet hefur fengið aðgang að, dagsettum 13. júní, stendur að leyfið skuli framkvæmt undir eftirliti.

„Mijailo Mijailovic hefur sótt um loftholsleyfi. Fangelsismálastofnun túlkar umsóknina sem beiðni um sérstakt leyfi til að draga úr skaðlegum áhrifum langvarandi frelsissviptingar. Fangelsið í Kumla hefur mælt með umsókn hans.“

Fangelsismálastofnunin skrifar í mati sínu að engar öryggishindranir séu því til fyrirstöðu að hann fái leyfið.

„Með hliðsjón af því sem fram kemur í málinu metur Fangelsismálastofnun að engar öryggishindranir séu gegn því að samþykkja umsókn Mijailo Mijailovic um sérstakt leyfi í þeim tilgangi að draga úr skaðlegum áhrifum frelsissviptingar. Af öryggisástæðum metur Fangelsismálastofnun að leyfið skuli framkvæmt undir eftirliti,“ stendur í ákvörðuninni.

Mijailovic má samkvæmt Fangelsismálastofnun ekki fá reglubundið leyfi en vorið 2025 fór Mijailovic í læknisheimsókn og þurfti þá að bera fótajárn.

 Mijailovic hefur einnig verið dæmdur fyrir alvarlega líkamsárás eftir að hafa ráðist á samfanga með skrúfjárni á gangi fangelsis í Kumla. Mijailovic stakk samfangann nokkrum sinnum í brjóst og kvið í því sem var lýst sem algjörlega tilefnislausri árás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×