Fótbolti

Féllu á lyfja­prófi vegna gúmmíkurls í gervigrasinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir spilar með liði Vålerenga.
Íslenska landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir spilar með liði Vålerenga. Getty/Marius Simensen/STR

Margir hafa mikla áhyggjur af slæmum áhrifum dekkjark­urls á börn og fullorðna sem æfa og keppa á gervigrasvöllum. Nýjustu fréttir frá Noregi gera ekkert annað en að ýta undir slíkar áhyggjur.

Athygli vakti þegar fjölmargir leikmenn féllu á lyfjaprófi á dögunum sem var tekið eftir leik Lilleström og Íslendingaliðsins Vålerenga í norsku kvennadeildinni í fótbolta. Nú er málið að skýrast betur og hefur farið í óvænta átt.

Átta leikmenn féllu á lyfjaprófi sem var tekið eftir leikinn og nú hefur norska knattspyrnusambandið staðfest það að ástæðan sé gúmmíkurlið í gervigrasinu.

Íslenska landsliðkonan Sædís Rún Heiðarsdóttir spilar með Vålerenga en það var aldrei gefið upp hvaða leikmenn liðsins hafi fallið á þessu lyfjaprófi. Þær eru nú allar komnar með skýringu á af hverju ólöglega efnið fannst í þeirra sýni.

Norska ríkisútvarpið segir frá því að gervigrasvellinun í Lilleström hafi verið lokað ótímabundið á meðan ítarlegri rannsókn fer fram.

„Við tókum sýni, bæði úr búningsklefanum sem og af vellinum sjálfum Þau voru síðan send til rannsóknar. Meðal þessa sem var rannsakað var þetta gúmmíkurl. Í því sýni fannst efnið DMBA sem hafði greinst í sýnum viðkomandi leikmanna, sagði Åse Kjustad Eriksson, yfirmaður Lyfjaeftirlits Noregs.

Lyfjaeftirlitið hafði notað útilokunaraðferðina til að komast að réttri niðurstöðu.

Þeir skoðuðu náið mataræði leikmanna og hvaða fæðubótarefni þær neyttu í aðdraganda leiksins. Þeir skoruðu síðan alla staðina þar sem leikmennirnir eyddu tíma í kringum leikinn.

„Það var þá sem, fyrir slysni, að við áttuðum okkur á því að sýnið sem innihélt gúmmíkurlið, geymdi svarið,“ sagði Eriksson.

Ákvörðun var tekin um að loka Lilleström höllinni um óákveðin tíma. Höllin er með glænýtt gervigras sem var sett á völlinn í janúar síðastliðnum.

„Þetta er fyrirbyggjandi ráðstöfun til að tryggja það að engir íþróttamenn eigi hættu á því að falla á lyfjaprófi vegna þessa,“ sagði í yfirlýsingu frá Lilleström.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×