Handbolti

Aron ráðinn til FH

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður handknattleiksdeildar FH, innsiglar samninginn við Aron með handabandi.
Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður handknattleiksdeildar FH, innsiglar samninginn við Aron með handabandi. Mynd/FH

Aron Pálmarsson hefur verið ráðinn til starfa hjá handknattleiksdeild uppeldisfélags hans, FH. Aron verður sérlegur faglegur ráðgjafi við deildina.

FH greindi frá á samfélagsmiðlum í morgun. Samkvæmt yfirlýsingu FH mun Aron koma að yngri flokka starfi sem og afreksstarfi hjá FH-ingum og vinna að þeim með stjórn og þjálfurum handknattleiksdeildar félagsins.

Aron hætti handboltaiðkun sem leikmaður í vor er hann vann ungverska meistaratitilinn með Veszprem í Ungverjalandi. Aron kom heim til FH fyrir tímabilið 2023-24 og varð Íslandsmeistari með uppeldisfélaginu. Hann fór svo óvænt á miðju síðasta tímabili frá FH til Veszprem og lauk ferli sínum þar.

Aron er sigursælasti handboltamaður Íslandssögunnar en hann vann 13 landstitla á sínum ferli þar sem hann lék í Danmörku, Þýskalandi, Spáni og Ungverjalandi.

„Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um þegar FH leitaði til mín um að koma inn í starfið hjá félaginu. Eins og allir vita þá er ég gríðarlegur FH-ingur og hef miklar skoðanir á því hvernig hægt sé að gera hlutina. Ég hlakka til að vinna með ungum og upprennandi FH-ingum og deila þekkingu minni. Ég vona að sú reynsla sem ég bý yfir muni hjálpa félaginu að eflast enn frekar,“ er haft eftir Aroni í yfirlýsingu FH.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður handknattleiksdeildar félagsins, segir um hvalreka að ræða fyrir FH-inga.

„Við erum einstaklega stolt af því að fá Aron inn í starfið hjá FH. Hann hefur mikla ástríðu fyrir félaginu og býr yfir einstakri reynslu og þekkingu sem mun hjálpa félaginu á víðum grunni. Aron mun hjálpa FH að taka næstu skref í skipulagi starfsins í heild og gera þannig gott starf ennþá betra.“

Yfirlýsinguna í heild má sjá að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×