Viðskipti innlent

Far­þegum til landsins fjölgaði um tuttugu prósent

Árni Sæberg skrifar
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair. Vísir/Egill

Í júní 2025 flutti Icelandair 552 þúsund farþega, sem er sjö prósent aukning miðað við júní á síðasta ári. Aukningin var mikil á markaði til Íslands, þar sem farþegum fjölgaði um tuttugu prósent og markaði frá Íslandi, þar sem fjölgunin nam nítján prósent.

Í fréttatilkynningu frá Icelandair segir að það sem af er ári hafi félagið flutt rúmlega 2,2 milljónir farþega.

Í júní hafi 35 prósent farþega verið á leið til Íslands, sautján prósent frá Íslandi, 44 hafi verið tengifarþegar og fjögur prósent hafi ferðast innanlands. Aukningin á mörkuðunum til og frá Íslandi sé í samræmi við aukna áherslu félagsins á þá markaði. 

Sætanýting hafi numið 85,1 prósent samanborið við 83,4 prósent í júní á síðasta ári og stundvísi hafi verið 86,8 prósent. Seldir blokktímar í leiguflugi hafi aukist um 52 prósent og fraktflutningar um sextán prósent miðað við júní í fyrra. Kolefnislosun hafi minnkað um fimm prósent á tonnkílómetra.

„Það er ánægjulegt að sjá markaðinn til Íslands halda áfram að styrkjast og fjölgaði farþegum til landsins um 20% í júní í kjölfar aukinnar áherslu okkar á markaðina til og frá Íslandi að undanförnu. Við bættum Gautaborg við sem áfangastað í leiðakerfinu á ný eftir sjö ára hlé og í júní bættist BYKO í hóp samstarfsaðila Saga Club, vildarklúbbs Icelandair. Saga Club er stærsta fríðindakerfi á Íslandi með um 400 þúsund virka félaga og skapar mikið virði fyrir viðskiptavini okkar bæði með söfnun og nýtingu vildarpunkta,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×