Innlent

Lög­reglu­maður á sjúkra­húsi eftir al­var­lega á­rás á Goslokahátíð

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Goslokahátíð fór fram í Vestmannaeyjum um helgina.
Goslokahátíð fór fram í Vestmannaeyjum um helgina. Vísir/Vilhelm

Ráðist var á lögreglumann á frívakt á sextugsaldri á goslokahátíðinni í Vestmannaeyjum á aðfaranótt sunnudags. Árásin var alvarleg að sögn yfirlögregluþjóns og var hann fluttur á sjúkrahús.

Stefán Jónsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum, segir að það sé til rannsóknar að árásin hafi beinst að lögreglumanninum vegna starfa hans hjá lögreglunni.

Líðan lögreglumannsins særða liggur ekki fyrir en ljóst er að árásin var sérstaklega harkaleg. Ráðist var á hann á há- og miðpunkti hátíðarhaldanna á Vigtartorgi við höfnina í Heimaey.

Stefán Jónsson yfirlögregluþjónn segir málið til meðferðar hjá embættinu í Eyjum. Það sé að viða að sér gögnum, hafa upp á vitnum og skoða myndefni úr öryggismyndavélum.

Hann segist gera ráð fyrir því að málið endi á borði héraðssaksóknara enda um alvarlega líkamsárás og árás á opinberan starfsmann að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×