Neytendur

Vilja „ósýni­legar“ stöðumæla­sektir burt

Bjarki Sigurðsson skrifar
Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna. Vísir/Einar

Formaður Neytendasamtakanna segir svokallaðar „ósýnilegar stöðumælasektir“ ekki eiga að líðast hér á landi. Hann kallar eftir því að stjórnvöld feti í fótspor Dana sem hafa bannað þannig sektir.

Frá því í nóvember 2023 hefur Bílastæðasjóður Reykjavíkur ekki sett sektarmiða undir rúðuþurrku ökutækja, heldur fá þeir sem leggja ólöglega þess í stað rukkun í heimabanka og tilkynningu á Ísland.is. Ákvörðunin var rökstudd með að verið væri að innleiða nýja tækni í eftirliti, auk þess sem það væri umhverfisvænna að sleppa prentun.

Neytendur eru margir hverjir afar ósáttir með fyrirkomulagið og segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, að hann fái nánast daglega kvörtun vegna þess sem hann kallar „villta vestrið“ í bílastæðamálum. Sektirnar eigi það til að berast mjög seint og þeir sem sektaðir eru hafa enga hugmynd um hvað þeir gerðu af sér.

„Það virðist vera að það sé markmið í sjálfu sér að sekta eins mikið og hægt er, bara eins og vindurinn. Þá án þess að láta fólk vita og af hverju eða hvar sektin á uppruna sinn. Fólk á skýlausan rétt á því að vita fyrir hvað það er að greiða, jafnvel þó það sé sekt. Það á ekki að líðast að fá ótilgreindar upphæðir í rukkun í heimabanka án þess að neitt standi þar á bak við,“ segir Breki. 

Þetta fyrirkomulag var notað í Danmörku í um tíu ár, en í síðustu viku setti samgönguráðherrann þar reglugerð um að fólk þurfi ekki að greiða stöðumælasektir, nema að stöðumælavörður setji miða á bílinn.

„Ég held að íslensk stjórnvöld hljóti að fylgja í fótspor Dana og geri þetta útlægt, að hægt sé að sekta hægri vinstri og ekki láta fólk vita,“ segir Breki. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×