Fótbolti

Missir af leik á EM vegna höfuðmeiðsla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Emma Snerle liggur í grasinu eftir að hún var skotin niður.
 Emma Snerle liggur í grasinu eftir að hún var skotin niður. Getty/ Alexander Hassenstein

Emma Snerle var einstaklega óheppin í öðrum leik danska landsliðsins á Evrópumótinu í fótbolta í Sviss þegar liðsfélagi skaut hana niður.

Undir lok tapleiksins á móti Þýskalandi þá varð Snerle fyrir því óláni að liðsfélagi hennar skaut boltanum í höfuð hennar af stuttu færi.

Þetta var augljóslega mikið högg, Snerle steinlá og það þurfti síðan að hjálpa henni af velli.

Nú er orðið ljóst að hún spilar ekki meira á mótinu. Danir eiga reyndar bara einn leik eftir þar sem þær dönsku eiga ekki lengur möguleika á sæti í átta liða úrslitunum.

Emma Snerle missir af leiknum á móti Pólverjum á laugardaginn.

„Henni líður betur í dag en mun ekki spila leikinn um helgina. Læknarnir fylgjast mjög vel með henni allan sólarhringinn. Þetta lítur betur út en hún verður ekki tilbúin fyrir laugardaginn,“ sagði landsliðsþjálfarinn Andrée Jeglertz.

Emma Snerle er 24 ára gamall miðjumaður og spilar með Fiorentina á Ítalíu. Hún lék áður með West Ham United í tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×