Handbolti

Þor­steinn Gauti semur við Sandefjord

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Þorsteinn Gauti er sá þriðji sem fer frá meistaraliðinu Fram.
Þorsteinn Gauti er sá þriðji sem fer frá meistaraliðinu Fram. vísir / anton brink

Íslandsmeistarinn Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, leikmaður Fram til fjölda ára og landsliðsmaður Finnlands, hefur samið við Sandefjord, nýliða í norsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Fram tilkynnti félagaskiptin á miðlum sínum. Þar er Þorsteini þakkað „innilega fyrir frábært framlag til félagsins, óteljandi minningar og mikinn dugnað.“

Þorsteinn Gauti varð tvöfaldur meistari með Fram í vor þegar liðið vann bikarkeppnina og Íslandsmótið.

Hann er sá þriðji sem fer frá Fram eftir að titillinn fór á loft en áður hefur verið greint frá félagaskiptum Reynis Þórs Stefánssonar til Melsungen í Þýskalandi og Tryggva Garðars Jónssonar til Alpla Hard í Austurríki.

Þá greinir handbolti.is frá því að Magnús Öder Einarsson sé að íhuga samningsstöðu sína og mögulega á förum frá félaginu.

Þorsteinn Gauti hefur átt sæti í handboltalandsliði Finnlands frá því 2022, hann er með tvöfalt ríkisfang vegna ömmu sinnar sem er finnsk.

Sandefjord leikur aftur í norsku úrvalsdeildinni á næsta ári eftir nokkurra ára fjarveru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×