Körfubolti

Ís­lensku strákarnir töpuðu stórt í sex­tán liða úr­slitunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Strákarnir í tuttugu ára landsliðinu áttu ekki möguleika á móti sterku ítölsku liði.
Strákarnir í tuttugu ára landsliðinu áttu ekki möguleika á móti sterku ítölsku liði. FIBA Basketball

Íslenska tuttugu ára landslið karla í körfubolta féll í dag út úr sextán liða úrslitum A-deildar Evrópumótsins eftir 43 stiga tap á móti Ítölum, 101-58. Keppnin fer fram í Heraklion á Krít.

Tapið þýðir að íslensku strákarnir spila nú um níunda til sextánda sæti á mótinu. Þeir unnu lokaleik sinn í riðlinum á móti Slóveníu en náðu ekki að fylgja því eftir í dag.

Friðrik Leó Curtis (ÍR, við nám í Bandaríkjunum) var atkvæðamestur í íslenska liðinu með ellefu stig, sjö fráköst, þrjár stoðsendingar og tvö varin skot.

Selfyssingurinn Skarphéðinn Árni Þorbergsson skoraði níu stig og þeir Viktor Jónas Lúðvíksson (Stjarnan) og Hilmir Arnarsson (Haukar, farinn í Álftanes) voru með átta stig hvor.

Íslensku strákarnir héldu í við ítalska liðið í fyrsta leikhlutanum og Ítalir voru bara tveimur stigum yfir eftir hann, 19-17.

Það fór að síga á ógæfuhliðina í öðrum leikhluta þar sem ítalska liðið keyrði yfir það íslenska. Ítalía vann leikhlutann 31-11 og var því 22 stigum yfir í hálfleik, 50-28.

Það munaði 29 stigum fyrir lokaleikhlutann, 71-42. Íslenska liðið átti góðan sprett í honum en þá gáfu Ítalir aftur í. Eftir það var lokaleikhlutinn aðeins formsatriði.

Þjálfarar liðsins eru þeir Pétur Már Sigurðsson og Hlynur Bæringsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×