Fótbolti

Vængmennirnir fimm sem United vill losna við

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jadon Sancho, Tyrell Malacia, Marcus Rashford, Antony og Alejandro Garnacho eru allir fáanlegir fyrir rétt verð.
Jadon Sancho, Tyrell Malacia, Marcus Rashford, Antony og Alejandro Garnacho eru allir fáanlegir fyrir rétt verð.

Eftir afleitt síðasta tímabil er ljóst að nokkuð verður um mannabreytingar hjá Manchester United. Félagið reynir nú eins og það getur að losa sig við fimm vængmenn.

Marcus Rasford, Antony, Alejandro Garnacho, Tyrell Malacia og Jadon Sancho eru allir fáanlegir fyrir rétt verð. Enginn þeirra var í leikmannahópi Manchester United er liðið mætti Leeds í æfingaleik í gær, laugardag. Raunar var enginn þeirra tekinn með í leikinn og fengu þeir að taka æfingu á æfingasvæði félagsins á meðan leikurinn stóð yfir.

Marcus Rashford virðist vera sá eini af fimmmenningunum sem er kominn vel áleiðis með að finna sér annað félag, en í gær var greint frá því að hann væri að öllum líkindum á leið til Barcelona.

Framtíð hinna fjögurra er hins vegar enn í lausu lofti. Sancho lék með Chelsea á láni á síðasta tímabili, Antony var lánaður til Real Betis og Malacia til PSV, en hins vegar virðist lítið ganga hjá United að finna lið sem eru tilbúin að kaupa leikmennina. Allavega eins og staðan er akkúrat núna.

Liðið er nú þegar búið að kaupa Matheus Cunha frá Wolves og er við það að ganga frá kaupum á Bryan Mbuemo frá Brentford. Þegar þeir tveir eru komnir er orðið lítið pláss fyrir mjög marga vængmenn í viðbót og forráðamenn United vilja eflaust ganga frá þessum málum sem fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×